Óli Björn - Alltaf til hægri
„Stóra-lausnin”

„Stóra-lausnin”

April 28, 2021

Á sama tíma og Samfylkingin virðist hafa gefist upp á sínu helsta baráttumáli – aðild Íslands að Evrópusambandinu – hefur Viðreisn ákveðið að blása að nýju, eftir nokkurt hlé, í lúðra Brussels. Þingmenn Viðreisnar hafa lagt fram þingsályktun þar sem ríkisstjórninni er falið „að hefja undirbúning að endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu“.

Ekki er hægt að skilja greinargerð þingsályktunartillögunnar á annan hátt en að kórónuveirufaraldurinn hafi kveikt aftur vonir í ESB-hjörtum Viðreisnar. Fullyrt er að afleiðingar faraldursins hafi „gjörbreytt efnahagslegum aðstæðum og að Ísland þurfi þess vegna „að nýta öll möguleg tækifæri sem örvað geta nýsköpun, eflt viðskipti og styrkt hagvöxt“. Aukin aðljóðleg samvinna sé óhjákvæmileg og lokaskrefið „til fullrar aðildar að Evrópusambandinu er nærtækasti og áhrifaríkasti kosturinn í þessu efni“.

Rökstuðningur fyrir að aðild að Evrópusambandinu hafa því lítið breyst frá árinu 2009. Vantrúin á flest það sem er íslenskt er rauði þráðurinn. Í stað þess að móta stefnu í utanríkisviðskiptum sem hefur það að markmiðið að fjölga kostunum í samskiptum við aðrar þjóðir, er skipulega reynt að fækka þeim. „Stóra-lausnin“ átti að vera evra og Evrópusambandið. 

Fábreytileiki eða samvinna í heilbrigðisþjónustu

Fábreytileiki eða samvinna í heilbrigðisþjónustu

April 23, 2021

Hægt en örugglega er að verða til jarðvegur fyrir tvöfalt heilbrigðiskerfi. Þannig er grafið undan sáttmálanum um að tryggja öllum jafnan aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.

Tregða heilbrigðisyfirvalda að nýta kosti einkaframtaksins í heilbrigðisþjónustu og vinna að samþættingu og samvinnu opinbers rekstrar og sjálfstætt starfandi aðila, er óskiljanleg. Dregið er úr valmöguleikum fólks, unnið gegn hagkvæmri nýtingu fjármuna og álag á opinber sjúkrahús er aukið.

Hægt og bítandi er verið að hneppa heilbrigðisþjónustuna í fjötra frábreytileika og aukinna útgjalda. Við munum eiga stöðugt erfiðara með að fylgja öðrum þjóðum eftir á sviði heilbrigðisvísinda. Samkeppnishæfni okkar við að laða til landsins vel menntað og hæfileikaríkt heilbrigðisstarfsfólk, eftir langt sérnám, verður verri.

Baktjaldamakk og hreinsanir

Baktjaldamakk og hreinsanir

April 18, 2021

Vinstri stjórnin 2009 til 2013, undir forystu Samfylkingarinnar, stundaði baktjaldamakk við umsókn að Evrópusambandinu, ætlaði að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu með samningum fyrir luktum dyrum og lokaði að sér. Þetta var dómur Árna Páls Árnasonar, fyrrverandi ráðherra og formanns Samfylkingarinnar. Dóminn felldi Árni Páll í bréfi til félaga í Samfylkingunni 11. febrúar 2016, en þar sagði meðal annars:

„Flokkurinn sem var stofnaður um ný vinnubrögð, íbúalýðræði og almannarétt lokaði að sér og forðaðist samtal og neitaði þjóðinni um aðkomu að stórum ákvörðunum í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Hér er haldið til haga nokkrum þáttum í stjórnsýslu vinstri stjórnarinnar. Hvernig pólitískar hreinsanir fóru fram í stofnunum og innan stjórnsýslunnar. Hvernig ráðist var til atlögðu til einstaklinga sem ekki voru ráðamönnum þóknanlegir.

Ólöf Nordal - ástríðustjórnmálamaður

Ólöf Nordal - ástríðustjórnmálamaður

April 7, 2021

Ólöf Nordal leit á það sem hugsjón að vera í stjórnmálum. „Maður gerir það af mikilli innri þrá og þarf að geta einbeitt sér að því,“ sagði Ólöf í viðtali við Morgunblaðið í september 2012 en þá hafði hún ákveðið að draga sig í hlé en hún snéri aftur á  sviðið nokkrum árum síðar. Ólöfu fannst alltaf skemmtilegast að „tengja saman ólík sjónarmið, líka hinna yngri og eldri“. Hún hafði enda unum af því að umgangast fólk, naut þess að ræða ólík sjónarmið – Ólöf kunni þá list að hlusta og rökræða – ýta undir skoðanaskipti.

Djúpstæð sannfæring Ólafar í stjórnmálum var byggð á trúnni einstaklinginn og á samfélag samhjálpar og náungakærleika. Hún var ástríðustjórnmálamaður. Í viðtali sagði hún: „Ef við höfum ekkert fram að færa, þá leggjum við upp í tilgangslausa ferð. Ef okkur tekst að koma því á framfæri, sem við viljum berjast fyrir, þá eigum við erindi.“

Ólöf meitlaði hugsjónir ágætlega í blaðagrein í júní 2010:

„Grunnstef Sjálfstæðisflokksins hefur ávallt verið frelsi einstaklingsins og réttur hans til athafna. Í þeim orðum felst jafnframt ákall um ábyrgð hans á gjörðum sínum og því samfélagi sem við viljum byggja hér upp.“

Auðvitað er útilokað að gefa heildstæða mynd af stjórnmálakonunni Ólöfu Nordal á nokkrum mínútum en ég vona að hlustendur verði einhverju nær um úr hvaða jarðvegi hugmyndir hennar voru sprottnar. Hún var varðmaður frelsisins. 

Eldhuginn Eykon

Eldhuginn Eykon

April 1, 2021

Eyjólfur Konráð Jónsson – eða Eykon eins og hann var alltaf kallaður, fæddist í Stykkishólmi árið 1928 en hann lést 1997 þá aðeins tæplega 69 ára. Hann varð stúdent frá Verslunarskóla Íslands 1949, lauk lögfræðiprófi 1955, féll málflutningsréttindi ári síðar og varð hæstaréttarlögmaður 1962.

Eykon var frumkvöðull – eldheitur hugsjónamaður, sem þoldi illa lognmollu og kyrrstaða var honum ekki að skapi. Hann var einn af stofnendum Almenna bókafélagsins árið 1955 og framkvæmdastjóri til 1960 þegar hann varð einn ritstjóra Morgunblaðsins. Því starfi sinnti hann til 1974 þegar hann var kjörinn á þing við Sjálfstæðisflokkinn í Norðurlandskjördæmi vestra. Áður hafði hann verið varaþingmaður. Á þingi sat Eykon til ársins 1995 og var þingmaður Reykvíkinga frá 1987.

Eykon var skemmtilegur maður, gat verið nokkuð ör og á stundum virkaði hann taugaveiklaður, en taugarnar voru sterkar, honum lá bara á – vildi að hlutirnir gerðust. Eykon var maður athafna, talsmaður einkaframtaksins og takmarkaðra ríkisafskipta. Eldheitur hugsjónamaður fyrir þátttöku almennings í atvinnulífinu. Hann lét ekki nægja að tala heldur framkvæmdi, var einn frumkvöðla í fiskeldi, forgöngumaður í iðnaði og frumkvöðull að stofnun Fjárfestingarfélag Íslands, sem innleiddi nýja hugsun inn í staðnað fjármálakerfi. Hann hafði einnig mikil afskipti af utanríkismálum og hafréttarmálum.

Ég fjalla stuttlega um hugmyndir Eykons í atvinnumálum og afstöðu hans til útþenslu ríkisins. 

Podbean App

Play this podcast on Podbean App