Episodes

Sunday Jun 14, 2020
Skattaglaðir útgjaldasinnar og uppskurður
Sunday Jun 14, 2020
Sunday Jun 14, 2020
Við sem stöndum andspænis skattaglöðum útgjaldasinnum og viljum stíga á útgjaldabremsuna höfum átt í vök að verjast. Við glímum við andstæðinga sem njóta dyggs stuðnings sérhagsmuna sem telja hagsmunum sínum best borgið með að kerfið þenjist út – að hlutfallslega kökusneiðin sé stærri þótt kakan sjálf kunni að vera minni.
Það þarf sterk bein og pólitískt þrek til að standast þann þrýsting sem gæslumenn sérhagsmuna beita. Og þrýstingurinn kemur ekki síst frá þeim sem betur eru settir í samfélaginu. Þeir sem lakast eru settir eru ekki háværastir. Hófsemd í kröfugerð um aukin útgjöld fer ekki eftir fjárhagsstöðu.
Skilningur á nauðsyn þess að gæta hófsemdar í álögum á fyrirtæki og einstaklinga er takmarkaður. Við sem teljum nauðsynlegt að koma böndum á skattagleði hins opinbera þurfum auðvitað að draga fram staðreyndir. Halda því til haga að skattbyrði á Íslandi, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, er sú þriðja þyngsta í Evrópu að teknu tilliti til lífeyris- og almannatrygginga. En staðreyndir duga ekki, það þarf að setja þær í samhengi við lífskjör almennings. Við verðum að læra að setja skattheimtu og reglubyrði í samhengi við samkeppnishæfni atvinnulífsins, fjölda starfa og möguleika fyrirtækja til að standa undir góðum launum og bættum lífskjörum.

Saturday Jun 13, 2020
Evruland í tilvistarkreppu
Saturday Jun 13, 2020
Saturday Jun 13, 2020
Þær þrengingar sem riðið hafa yfir í kjölfar kórónuveirufaraldursins hafa afhjúpað með skýrum hætti hve efnahagsleg staða evrulandanna er misjöfn. Í einfaldleika sínum má segja að löndin í norðri njóti velmegunar umfram þau í suðri. Gjáin milli suðurs og norðurs heldur áfram að breikka - efnahagslegt ójafnvægi er orðið meira. Fyrir okkur Íslendinga er það ekki gleðiefni.

Monday Mar 16, 2020
Covid-19: Stundum eiga stjórnmálamenn að þegja
Monday Mar 16, 2020
Monday Mar 16, 2020
Stjórnmálamenn verða að beita sjálfa sig aga og standa þétt við bakið á sérfræðingum sem stjórna baráttunni gegn illvígum vírus. Við sem sitjum á Alþingi getum haft okkar skoðanir á einstökum ákvörðunum þeirra en við verðum að hafa andlegan styrk til að þegja að þessu sinni. Við þurfum að einbeita okkur að öðru - efnahagslegum aðgerðum til að lágmarka skaðann fyrir íslensk fyrirtæki og heimili.
Covid-19 ætlar að reynast alþjóðlegu efnahagslífi þyngri í skauti en nokkur reiknaði með. Hversu alvarleg eða langvarandi efnahagslegu áhrifin eru veit enginn. En við Íslendingar erum betur í stakk búnir en flestar aðrar þjóðir til að takast á við vandann - jafnt á sviði heilbrigðisþjónustu sem efnahagsmála. Við höfum safnað korni í hlöðurnar á undanförnum árum.

Saturday Mar 07, 2020
Viðskiptafrelsi, sjálfstæði atvinnurekandinn og klípukapítalismi
Saturday Mar 07, 2020
Saturday Mar 07, 2020
Á meðan stjórnmálamenn (og embættismenn ekki síður) hafa jafnmikil áhrif á efnahagslífið og almennar leikreglur og raun ber vitni verða alltaf til fyrirtæki sem þeir telja „kerfislega mikilvæg“. Vegna þessa sé ekki aðeins nauðsynlegt að hafa með þeim eftirlit heldur ekki síður að búin sé til formleg eða óformleg bakábyrgð á rekstri þeirra. Ábyrgðina veita skattgreiðendur án þess að hafa nokkuð um það að segja.
Sagan geymir fjölmörg dæmi frá flestum Vesturlöndum þar sem skattgreiðendur hafa fengið reikninginn fyrir „björgunaraðgerðum“ ríkisins – ekki aðeins þegar björgunarhring hefur verið hent út til fjármálafyrirtækja heldur einnig annarra stórfyrirtækja. „Kerfislega mikilvæg“? Kannski. En alveg örugglega pólitískt mikilvæg fyrir ráðandi öfl.
Ég ætla að fjalla aðeins um viðskiptafrelsi, samkeppni, sjálfstæða atvinnurekandann, hætturnar sem fylgja skattalegum ívilnunum, fyrirgreiðslu stjórnmálamanna, og klíkukapítalisma

Tuesday Feb 25, 2020
Við erum að gera eitthvað rétt
Tuesday Feb 25, 2020
Tuesday Feb 25, 2020
Ísland er fyrirmyndarhagkerfi í úttekt Alþjóða efnahagsráðsins.
Ísland er öruggasta og friðsamasta land heims.
Jafnrétti kynjanna er hvergi meira en á Íslandi.
Á Íslandi eru greidd hæstu meðallaunin.
Í engu ríki OECD rennur stærri hluti af verðmætasköpun efnahagslífsins til launfólks en á Íslandi.
Jöfnuður er meiri á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum.
Mér er til efs að nokkur smáþjóð hafi nokkurn tíma alið af sér jafnmarga hæfileikaríka listamenn og Íslendingar, að ekki sé talað um afreksfólk í íþróttum.
Við erum að gera eitthvað rétt.

Thursday Feb 06, 2020
Skattar, efnahagslegt frelsi og jafnræði einstaklinga
Thursday Feb 06, 2020
Thursday Feb 06, 2020
Efnahagslegt frelsi er einn af hornsteinum frjáls samfélags. Einn mikilvægasti þáttur efnahagslegs frelsis er rétturinn til að ráðstafa því sem aflað er. Hið sama á við um réttinn til að ráðstafa eignum án afskipta annarra.
Flest ef ekki öll lýðræðisríki hafa talið nauðsynlegt að innheimta skatta af tekjum einstaklinga. Rökin fyrir tekjuskatti hafa fyrst og síðast verið tvíþætt. Annars vegar sé hinu opinbera nauðsynlegt að afla tekna til að standa undir starfsemi ríkis og sveitarfélaga, og hins vegar eigi að nýta skattkerfið til að jafna lífskjörin – færa fjármuni frá einum til annars.

Monday Feb 03, 2020
„Lifandi" lögskýringar og veikt löggjafarvald
Monday Feb 03, 2020
Monday Feb 03, 2020
Löggjafinn - Alþingi - er fremur veikbyggður gagnvart framkvæmdavaldinu og sumir halda því fram að þingið sé lítið annað en afgreiðslustofnun, þar sem frumvörp ráðherra eru afgreidd á færibandi. Það er ekki aðeins framkvæmdavaldið sem hefur sótt að löggjafanum. Dómstólar hafa gert það með ákveðnum hætti. Hugmyndin um að dómstólar geti tekið sér „lagasetningarvald" er útbreidd í öllum hinum vestræna heimi.

Wednesday Jan 29, 2020
Við eigum mikið undir
Wednesday Jan 29, 2020
Wednesday Jan 29, 2020
Fáar þjóðir eiga meira undir flugi en við Íslendingar. Efnahagslegt mikilvægi flugrekstrar er gríðarlegt - meira en flestir gera sér grein fyrir. Við eigum hins vegar mörg verkefni ókláruð til að tryggja undirstöður flugsins og þar með ferðaþjónustunnar. Þetta er ekki bara spurning um efnahagslegt mikilvægi heldur ekki síður öryggi.
Enginn þingmaður hefur betri innsýn og skilning á flugi og mikilvægi þess en Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Ég kom ekki að tómum kofanum hjá honum þegar við ræddum um hve við erum efnahagslega háð flugi og ferðaþjónustu.

Wednesday Jan 22, 2020
Blæðandi hjarta íhaldsmanns
Wednesday Jan 22, 2020
Wednesday Jan 22, 2020
Jack Kemp var maður drenglyndis í stjórnmálum. Hann taldi sig eiga pólitíska andstæðinga en enga pólitíska óvini. Í hverjum andstæðingi sá hann mögulega bandamenn og var óhræddur við að hrósa demókrötum og eiga við þá samvinnu til að vinna að hagsmunum almennings.
Ronald Reagan og Jack Kemp sannfærðu samherja sína í Repúblikanaflokknum um að með bjartsýni á efnahagslega framtíð væri hægt að ná eyrum og stuðningi kjósenda sem áður höfðu fylgt demókrötum að málum – allt frá verkamönnum til minnihlutahópa, frá fátækum fjölskyldum stórborganna til millistéttarinnar.

Monday Jan 20, 2020
Elítan, umræðustjórnar og almenningur
Monday Jan 20, 2020
Monday Jan 20, 2020
Líklegast eru „umræðustjórar“ til í flestum frjálsum samfélögum – fólk sem er sannfært um að það sé best til þess fallið að ákveðna um hvað skuli fjallað, hvað skuli krufið til mergjar í fjölmiðlum og hvert kastljósið skuli beinast hverju sinni. Umræðustjórarnir eru ófeimnir við að fella dóma yfir mönnum og málefnum og óhræddir við fordæma „rangar“ skoðanir.
Umræðustjórarnir eru eða vilja a.m.k. vera hluti af valdastéttinni – elítunni sem telur sig hafa meiri burði og þekkingu en almenningur til að ákveða rétt og rangt. Þröngur hópur embættismanna, sérfræðinga og vel menntaðra háskólamanna hafa lengi talið sér það skylt að „leiðbeina“ almenningi til að komast að réttri niðurstöðu. Umræðustjórnir leika undir og gefa oft tóninn.