Episodes

Saturday Oct 17, 2020
Grafið undan hornsteinum lýðræðis
Saturday Oct 17, 2020
Saturday Oct 17, 2020
Lýðræðið hvílir á mörgum hornsteinum. Málfrelsi þar sem ólíkar skoðanir takast á er einn þessara steina. Friðsamleg stjórnarskipti að loknum opnum og frjálsum kosningum er annar hornsteinn. Í Bandaríkjunum og víða í öðrum lýðræðisríkjum er stöðugt grafið undan þeim báðum og þannig verður sífellt hættulegra að tapa kosningum.
Hafi sagan kennt okkur eitthvað þá eru það þessi einföldu sannindi: Frelsi þrífst ekki án frjálsra og opinna skoðanaskipta. En þrátt fyrir þennan lærdóm virðast borgarar lýðræðisríkja ekki alltaf skynja þegar frelsinu er ógnað. Kannski er það vegna þess að ógnvaldurinn skiptir stöðugt um andlit, breytir aðferðum og orðanotkun. Kannski er sinnuleysið afleiðing velmegunar. Ef til vill kemur óttinn við afleiðingar í veg fyrir að tekið sé til máls.

Thursday Oct 15, 2020
Hollywood í klóm ritskoðunar
Thursday Oct 15, 2020
Thursday Oct 15, 2020
Í nýlegri skýrslu PEN America um áhrif stjórnvalda í Peking á kvikmyndaiðnaðinn er dregin upp dökk mynd. Skýrslan veitir innsýn í hvernig kínversk stjórnvöld hafa með beinni og óbeinni ritskoðun haft áhrif á Hollywood og alþjóðlegan kvikmyndaiðnað. Með skipulegum hætti hefur kínverski kommúnistaflokkurinn náð kverkataki á kvikmyndagerð. Stærstu framleiðendur heims leika eftir þeirri forskrift sem þeim er gefin. Þar með mótar Peking áhrifamesta listræna og menningarlega miðil heims – kvikmyndir – langt út fyrir eigin landamæri.

Friday Oct 02, 2020
Hagsmunabandalög og sundraðir skattgreiðendur, neytendur og kjósendur
Friday Oct 02, 2020
Friday Oct 02, 2020
Félög eða samtök mismunandi hagsmuna er komið á fót ekki aðeins til að gæta almennra hagsmuna félagsmanna heldur ekki síður til að afla forréttinda eða fyrirgreiðslu frá stjórnvöldum og eru ein ástæða þess að ríkið hefur þanist út.
Ekkert er óeðlilegt við að hagsmunasamtök vinni að framgangi þeirra mála sem varða félagsmenn þeirra mestu. Þetta á við um samtök fyrirtækja og launafólks, sem öll vinna hins vegar að einhvers konar sérhagsmunum – en það er rétt að hafa í huga að á stundum geta sérhagsmunir ekki aðeins farið saman við hagsmuni almennings heldur beinlínis eflt þá og styrkt enda oft barist fyrir framgangi mikilvægra réttlætismála sem snerta flesta ef ekki alla.
Sérhagsmunabandalögin eru fjölmörg og fleiri en flestir gera sér grein. Hagsmunabandalög eru hluti af frjálsu samfélagi en eftir því sem umsvif hins opinbera – ríkis og sveitarfélaga – eru meiri því nauðsynlegra er talið að mynda félög eða samtök til að tryggja hag einstakra hópa, atvinnugreina eða fyrirtækja.
Fáir Íslendingar standa utan við sérhagsmunabandalög af einhverju tagi.
Hagsmunahópar geta og hafa mikil áhrif á störf og stefnu stjórnmálamanna, stjórnmálaflokka og þar með stjórnvalda og því er mikilvægt að átta sig á hvers vegna.

Saturday Sep 26, 2020
Stjórnmálamaður „á að vera hugrakkur, vinnusamur og hafa hjartað á réttum stað"
Saturday Sep 26, 2020
Saturday Sep 26, 2020
Vígfimur baráttumaður, hreinlyndur drengskaparmaður, hjartahlýr og hjálpfús, trygglyndur, hugrakkur stjórnmálamaður og orðheppinn húmoristi. Þannig hefur Ólafi Thors, forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins til áratuga, verið lýst. Óumdeilt er að Ólafur var einhver áhrifamesti stjórnmálamaður okkar Íslendinga á síðustu öld.
Ólafur var óhræddur að feta inn á nýjar brautir í stjórnmálum – beita vinnubrögðum og aðferðum sem fáum hafði hugkvæmst eða ekki haft burði til.

Sunday Sep 20, 2020
Lífið sjálft felur í sér áhættu
Sunday Sep 20, 2020
Sunday Sep 20, 2020
Lífið sjálft felur í sér áhættu. Sá sem vill enga áhættu taka hreyfir sig aldrei, gerir eins lítið og hægt er, heldur sig heima við, fer ekki út úr húsi, skapar ekkert, takmarkar samskipti við aðra eins og mögulegt er. Hægt en örugglega veslast viðkomandi upp andlega og líkamlega – verður lifandi dauður. Dauðinn einn tryggir að hægt sé að koma í veg fyrir áhættu lífsins.
Hið sama á við um samfélög og einstaklinga. Samfélag sem lokar á eða takmarkar til lengri tíma mannleg samskipti, slekkur ljósin og stöðvar hjól atvinnulífsins, molnar með tímanum að innan – hættir að vera samfélag frjálsra borgara.
Tímabundnar aðgerðir sem skerða borgaraleg réttindi kunna að vera réttlætanlegar í nafni almannaöryggis. Slíkar ráðstafanir eru neyðaraðgerðir á tímum mikillar óvissu. En þegar stjórnvöld skerða frelsi einstaklinga meira en hálfu ári eftir að óvissustigi var lýst yfir hér á landi vegna kórónuveirunnar, þá dugar ekki lengur einföld tilvísun í lög um sóttvarnir. Heimildin verður að vera skýr og afdráttarlaus í lögum og hún fæst ekki án aðkomu löggjafans, jafnvel þótt ætlunin sé að slaka á klónni hægt og bítandi. Ákvarðanir stjórnvalda þurfa að styðjast við skýran bókstafa laga og þær mega ekki ráðast af hræðslu og ótta við að takast á við áhættur lífsins.

Wednesday Sep 16, 2020
Heimboð og vegtyllur - Forseti MDE gagnrýndur
Wednesday Sep 16, 2020
Wednesday Sep 16, 2020
Róbert Spanó, forseti Mannréttindadómstóls Evrópu lagði nýlega land undir fót og heimsótti Tyrkland heim, átti fund með Erdógan forseta og þáði heiðurdoktorsnafnbót frá Háskólanum í Istanbúl, „háskóla sem rak fjölda fræðimanna úr starfi á ólöglegan hátt“ líkt og Kenneth Roth, framkvæmdastjóri mannréttindasamtakanna Human Rights Watch benti réttilega á.
Á undanförnum árum hafa þúsundir blaðamanna, fræðimanna og pólitískir andstæðingar Erdogan forseta verið handteknir, flæmdir úr starfi. Dómskerfið hefur verið og er nú undir hæl stjórnvalda.
Róbert Spanó hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir heimsóknina og fulltrúar mannréttindasamtaka, tyrkneskir stjórnarandstæðingar og landflótta Tyrkir hafa kallað eftir afsögn hans sem forseta. Forseti sjálfstæðs dómstóls sem eigi að standa vörð um mannréttindi fólks eigi ekki að þiggja heimboð eða vegtyllur manns sem sé að breyta lýðræðisríki í einræðisríki þar sem mannréttindi eru fótum troðin.
En Róbert á sína verjendur ekki síst hér á landi. Og fyrir marga er forvitnilegt hverjir hafa gripið til varna.

Tuesday Sep 08, 2020
Gölluð lagasetning - aukin áhætta launafólks
Tuesday Sep 08, 2020
Tuesday Sep 08, 2020
Alþingi samþykkti 3. september frumvarp félagsmálaráðherra um svokölluð hlutdeildarlán. Óhætt er að segja að stuðningur við málið hafi verið víðtækur og þvert á flokka. Allir þingmenn fyrir utan einn studdu frumvarpið í endanlegri mynd. Þessi eini sem sat hjá er stjórnarþingmaður og sá er hér talar.
Það er ekki einfalt eða léttvægt fyrir stjórnarþingmann að sitja hjá þegar frumvarp ríkisstjórnar kemur til atkvæða. Með rökum á halda því fram að hjáseta sé í raun ekki annað en yfirlýsing um að viðkomandi styðji ekki málið og jafngildi því að greiða atkvæði á móti stjórnarfrumvarpi.
En hvað eru hlutdeildarlán og af hverju gat ég ekki stutt stjórnarfrumvarp?

Sunday Aug 09, 2020
Brostnar forsendur?
Sunday Aug 09, 2020
Sunday Aug 09, 2020
Borgarlínan er hluti af sérstökum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, sem undirritaður var með viðhöfn í Ráðherrabústaðnum í september síðastliðnum, en aðeins hluti. Áætlaður kostnaður er um 120 milljarðar króna á næstu 15 árum.
Markmið samkomulagsins er skýrt:
„Að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.“
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs, fór mikinn í grein í Morgunblaðinu 13. júlí síðastliðinn: „Einkabíllinn er ekki framtíðin“. Formaður skipulags- og samgönguráðs boðaði færri „bílaakreinar og færri bílastæði“ og Borgarlínu með „stórtækum hjólainnviðum“.
Ekki verður annað séð en að einbeittur ásetningu sé innan meirihluta borgarstjórnar að virða samgöngusáttmálanna - þ.e. þann hluta sem þeim hugnast ekki - að vettugi. Sé svo eru forsendur sáttmálans brostnar.

Friday Aug 07, 2020
Aukum súrefnið
Friday Aug 07, 2020
Friday Aug 07, 2020
Hægt og bítandi verður myndin skýrari. Efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins eru fordæmalausar. Öll stærstu hagkerfi heimsins hafa orðið fyrir þungu höggi vegna Covid-19. Þróunarbanki Asíu taldi í maí að efnahagslegur kostnaður heimsins af Covid-19 gæti orðið allt að 8,8 billjónir dollara eða 9,7% af heimsframleiðslunni.
Afleiðingar Covid á íslenskt efnahagslíf eru í mörgu alvarlegri en hjá öðrum löndum og skiptir þar mestu hve mikilvæg ferðaþjónustan er orðin eftir ótrúlega uppbyggingu á síðustu árum. Alþingi kemur saman síðar í mánuðinum til að afgreiða nýja fjármálastefnu en 1. október kemur nýtt þing saman og þá leggur fjármálaráðherra fram fjárlagafrumvarp fyrir komandi ár. Það vitlausasta sem þingið getur gert við núverandi aðstæður er að freista þess að auka tekjur ríkisins með þyngri álögum á fyrirtæki og/eða heimili.

Monday Jul 20, 2020
Sjálfstæði fjölmiðla og ríkisstyrkir
Monday Jul 20, 2020
Monday Jul 20, 2020
Sjálfstæðisfjölmiðlar hafa þurft að sæta því að eiga í samkeppni við ríkisfyrirtæki, sem fær þvinguð framlög frá skattgreiðendum en um leið frítt spil á samkeppnismarkaði. Þrátt fyrir að erfið staða sjálfstæðra fjölmiðla hafi blasað við öllum í mörg ár, hefur varðstaðan um Ríkisútvarpið aldrei rofnað. Ríkisútvarpið nýtur þess að vera í mjúkum og hlýjum faðmi stjórnmálamanna. Meirihluti Alþingis hefur ekki áhuga á að breyta leikreglunum en virðist einhuga í að koma fremur upp flóknu styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla, sem verða um leið háðir ríkisvaldinu.
Mótsögnin um sjálfstæða fjölmiðla og ríkisstyrktan rekstur þeirra samkvæmt ákvörðunum opinberra úthlutunarnefnda og stofnana, blasir við en veldur fáum áhyggjum.
Sé vilji til þess að styrkja rekstur sjálfstæðra fjölmiðla er það best gert með lækkun skatta.

