Episodes

Friday Jun 24, 2022
Ekkert breytist í Reykjavík
Friday Jun 24, 2022
Friday Jun 24, 2022
Það var skrifað í skýin eftir sveitarstjórnarkosningarnar að Dagur B. Eggertsson héldi áfram sem borgarstjóri, þrátt fyrir að flokkur hans hafi tapað verulegu fylgi og þrátt fyrir að meirihluti undir hans forystu hefði fallið í annað skipti í röð. Hægt er að gagnrýna Dag B. Eggertsson borgarstjóra fyrir margt en fáir íslenskir stjórnmálamenn búa yfir sömu hæfileikum og hann til að spila úr þröngri stöðu. Að snúa ósigri í kjörklefanum í sigur við samningaborð margra flokka er ekki gert án klókinda.
Meirihluti borgarstjórnar heldur áfram enda búið að setja enn eitt varadekkið undir. Ekkert breytist – haldið verður áfram á sömu braut og undanfarin ár. Að þessu leyti vita borgarbúar á hverju þeir mega von á. Og þess vegna hefði verið óþarfi að eyða miklum tíma (og peningum) í samstarfssáttmála með litlu innihaldi, miklu orðskrúði og mörgum fallegum orðum.

Wednesday Jun 22, 2022
Sérstakt og ekki alltaf áferðafallegt
Wednesday Jun 22, 2022
Wednesday Jun 22, 2022
Þinghaldið var í mörgu sérstakt og ekki alltaf áferðafallegt eða þingheimi til sóma. Heilu vikurnar fóru í innihaldslitar umræður þar sem fá mál þokuðust áfram – allra síst þau sem horfa til framfara. Gallar þingskaparlaga komu vel í ljós – gallar sem þingmenn geta ekki lengur litið fram hjá og komið sér undan að sníða af.
Í mörg ár hafa forsetar Alþingis ekki síður en óbreyttir þingmenn og ráðherrar – þvert á flokka – verið tíðrætt um nauðsyn þess að breyta vinnubrögðum. Umræðan hefur litlu skilað eins og berlega kom í ljós á liðnum vetri.
Í mörg ár hef ég reglulega minnt á að Alþingi verði að brjótast út úr þeim vítahring sem búinn hefur verið til með mælistiku sem þingmenn og fjölmiðlar nota til að meta þingstörfin.

Thursday May 12, 2022
Hugmyndafræði skiptir máli í sveitarstjórnum
Thursday May 12, 2022
Thursday May 12, 2022
Það er misskilningur að halda því fram að hugmyndafræði skipti engu í sveitarstjórnum. Reynslan sýnir annað. Á meðan einn frambjóðandi berst fyrir lægri álögum gefur hinn loforð um aukin útgjöld. Frambjóðandi sem leggur áherslu á valfrelsi borgaranna getur aldrei átt samleið með þeim sem vill steypa alla í sama mótið. Stjórnmálamaður sem talar fyrir aðhaldssemi í rekstri kemur ekki fram og gefur út kosningavíxla og tugmilljarða loforð. Slíkt gerir aðeins sá sem annað hvort ætlar ekki að efna gefin fyrirheit eða stefnir að því að láta kjósendur borga brúsann að fullu. Stjórnmálamaður sem berst fyrir sífellt auknum útgjöldum hefur litlar áhyggjur af þungum álögum á íbúana. Áhugi hans snýst um að láta engin tækifæri til tekjuöflunar fram hjá sér fara og ef nauðsynlegt er að skuldsetja sveitarsjóð.
Það er borin von að álögur á borgarbúa lækki á komandi árum haldi núverandi meirihluti velli – enn eitt varadekkið breytir þar engu. Útsvarið lækkar ekki, þjónustugjöld lækka ekki. Fyrir launafólk sem býr í Reykjavík eru þetta slæmar fréttir. Verði stjórn borgarinnar óbreytt næstu fjögur árin er geta Reykvíkingar ekki gert sér miklar vonir um bætta þjónustu. Samgöngur verða áfram í ólestri og þar skiptir engu þótt gömul kosningaloforð um stokk séu endurnýjuð. Bolmagn borgarinnar til að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar í hagræðum og félagslegum innviðum verður takmarkað.

Saturday Mar 19, 2022
Sundraðar þjóðir sameinast
Saturday Mar 19, 2022
Saturday Mar 19, 2022
Í skjóli veiklyndis og klofnings Vesturlanda taldi Pútín sér óhætt að leggja til atlögu og ráðast inn í fullvalda ríki. Þegar frjálsar þjóðir verða efnahagslega og pólitískt háðar landi sem stjórnað er af hrotta, sem hefur leikreglur lýðræðis að engu og virðir fullveldi nágrannaríkja að vettugi, eiga þær á hættu að verða berskjaldaðar gagnvart yfirgangi. Leiða má rök að því að Pútín hafi nýtt sér sinnuleysi og fullkomið ábyrgðarleysi þjóða Evrópusambandsins og þá sérstaklega Þýskalands í orkumálum. Kæruleysi og barnaskapur forysturíkja Evrópusambandsins í varnarmálum á síðustu áratugum hefur opinberast með afgerandi hætti eftir innrásina í Úkraínu. Sambandið hefur hvorki hernaðarlega burði né pólitískt þrek til að tryggja varnir aðildarlanda. Öryggi Evrópu og þar með Evrópusambandsins byggist á öflugu varnarsamstarfi Atlantshafsbandalagsins. Lærdómurinn frá hryllingi borgarastríðsins í Bosníu er ekki ofarlega í huga þeirra sem af léttúð telja Evrópusambandið hafa tryggt frið í Evrópu. Þá reyndist Evrópusambandið fullkomlega ófært um að koma á friði í bakgarði sínum. Friður komst ekki á fyrr en Bandaríkin létu til sín taka með bakstuðningi NATÓ.
Það er því í besta falli smekklaust að eins máls flokkar reyndi að nýta sér innrás Rússa í Úkraínu til að boða hina endanlegu og einu lausn allra vandamála; aðild að Evrópusambandinu, með þeim rökstuðningi að verið sé að tryggja varnar- og öryggishagsmuni Íslands. Í þeirri von að loksins rætist draumurinn ESB-aðild er hoppað á vagn hræðsluáróðurs. Einu sinni var það evran sem öllu átti að bjarga hér á landi og nú á Evrópusambandið að tryggja öryggi landsins gagnvart utanaðkomandi ógn.

Thursday Feb 17, 2022
Frá hungurmörkum til bjargálna, arðsemi og sjálfbærni
Thursday Feb 17, 2022
Thursday Feb 17, 2022
Með kvótakerfinu var hægt en örugglega sagt skilið við kerfi sem var fjármagnað með lakari lífskjörum almennings. Fyrir daga kvótakerfisins var útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum haldið við hungurmörk með millifærslum og gengisfellingum. Auðlindum var sóað og sóknarkerfi og pólitísk miðstýring leiddi til offjárfestingar.
Kerfið allt var rotið – gegnsýrt af millifærslum til að styðja við óhagkvæman og ósjálfbæran sjávarútveg. Búin var til eins konar vítisvél þar sem gengi krónunnar var eitt helsta hagstjórnartækið og það fellt reglulega. Gengisfelling, gengissig, gengisaðlögun urðu orð sem voru flestum töm – hluti af veruleika íslensks launafólks sem bar byrðarnar til að halda óarðbærum atvinnurekstri áfram í súrefnisvél.

Thursday Feb 17, 2022
Löngunin að öðlast stundarfrægð
Thursday Feb 17, 2022
Thursday Feb 17, 2022
Ummæli eldast misjafnlega. Sum halda gildi sínu í gegnum tímann en önnur hefðu mátt vera ósögð. Í andrúmslofti þar sem frægðin í 15 mínútur vegur þyngra en innihaldið verða orðin ódýr – líkt og óþægilegt suð í eyrum kjósenda. Orðræðan myndar ekki farveg fyrir traust á stjórnmálum eða helstu stofnunum samfélagsins. Þar leika fjölmiðlungar og álitsgjafar stórt hlutverk en mestu ábyrgðina berum við stjórnmálamennirnir, sem eigum þó meira undir en flestir aðrir að njóta trausts fólksins í landinu.

Tuesday Feb 15, 2022
Tálsýn
Tuesday Feb 15, 2022
Tuesday Feb 15, 2022
Við eigum enn eftir að átta okkur að fullu á þeim félagslega og efnahagslega kostnaði sem almenningur hefur þurft að greiða vegna heimsfaraldursins og þeirra hörðu sóttvarnaaðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til.
Vísbendingar eru orðnar nokkuð skýrar um að lokunarstefna sem flestar þjóðir innleiddu reyndist ekki eins árangursrík og vonir stóðu til. Kannski er mikilvægasti og dýrmætasti lærdómur almennings síðustu misseri sá að beita alltaf gagnrýnni hugsun. Ávinningurinn sem stjórnvöld lofa þegar gengið er á réttindi einstaklinga reynist oftar en ekki tálsýn.

Saturday Jan 08, 2022
Frelsið á ekki samleið með óttanum
Saturday Jan 08, 2022
Saturday Jan 08, 2022
Við getum ekki notað sömu baráttuaðferðir og í upphafi þegar óvinurinn var lítið þekktur. Við getum ekki gripið til harkalegri sóttvarna en þegar við vorum lítt varin og sent tugi þúsunda í einangrun eða sóttkví þegar langstærsti hluti landsmanna er bólusettur og alvarleg veikindi fátíð.
Við sem eldri erum getum ekki krafist þess að börn og unglingar sæti þvingunum til að verja heilsu okkar. Skylda okkar er að tryggja að ungt fólk fái að lifa og þroskast í samneyti við jafnaldra sína, geti stundað nám og félagsstörf, farið á böll og komið saman á góðri stundu. Sóttvarnaaðgerðir verða að taka mið af þessari skyldu.
Og sóttvarnaraðgerðir verða að taka mið af því að hægt sé að tryggja gangverk samfélagsins – að það stöðvist ekki. Stjórnvöld og þá ekki síst yfirvöld heilbrigðismála verða að hafa andlegt þrek til að hlusta á gagnrýni og svara áleitnum spurningum, án hroka eða kynda undir ótta almennings. Í lýðfrjálsu landi geta borgararnir aldrei sætt sig við að stjórnvöld nýti sér óttann til að réttlæta takmarkanir á mannlegum samskiptum.

Monday Nov 15, 2021
Stjórnlyndi á vaktinni
Monday Nov 15, 2021
Monday Nov 15, 2021
Stjórnlyndir samfélagsverkfræðingar og ríkisreknar barnfóstrur láta ekki að sér hæða og eru alltaf á vaktinni. En framtakssamir og hugmyndaríkir einstaklingar leggja ekki árar í bát. Þeir finna nýjar leiðir, móta nýjar hugmyndir og ryðja farveg þar sem tækni samtímans er nýtt. Á undanförnum árum hefur komið fram á sjónarsviðið fjöldi hlaðvarpa sem mörg hver hafa notið mikilla vinsælda. Fjölbreytileikinn virðist óendanlegur; þjóðmál, sagnfræði, kvenréttindi, heilsa, hugleiðsla, listir og menning, íþróttir og raunar nær allt mannlegt. Halda má því fram að hlaðvörp framtakssamra einstaklinga hafi verið og séu vaxtarbroddar íslenskrar fjölmiðlunar síðustu misserin. Þegar efnilegir vaxtarbroddar ná að festa rætur getur kerfið – báknið – ekki á sér setið. En í stað þess að vökva er klipið og sært.

Saturday Nov 13, 2021
Loftlagskvíði og barneignir
Saturday Nov 13, 2021
Saturday Nov 13, 2021
Lækkandi fæðingartíðni hefur fylgt vaxandi velmegun þjóða. Að þessu leyti sker Ísland sig ekki úr, þótt þróunin hafi að nokkru verið hægari hér á landi en í nágrannalöndunum. Vísbendingar eru hins vegar um að aðrir þættir en efnahagslegir kunni að verða ráðandi í framtíðinni þegar kemur að lýðfræðilegri þróun þjóða.
Í september síðastliðnum var kynnt í læknatímaritinu Lancet niðurstaða viðamikillar rannsóknar meðal tíu þúsund ungmenna á aldrinum 16 til 25 ára í tíu löndum um loftslagskvíða og áhrif loftslagsbreytinga á líf þeirra. Niðurstöðurnar eru sláandi.