Episodes

Thursday Nov 11, 2021
Innleiðum samkeppni í grunnskólann
Thursday Nov 11, 2021
Thursday Nov 11, 2021
Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að okkur Íslendingum hafa verið mislagðar hendur í mörgu þegar kemur að grunnmenntun barnanna okkar. Grunnskólinn er sá dýrasti á Vesturlöndum en börnin standa jafnöldrum sínum í nágrannalöndunum að baki í undirstöðugreinum. Vísbendingar eru um að kulnun í starfi meðal grunnskólakennara sé að aukast sem beinir athyglinni að starfsumhverfi, starfskjörum og umbun kennara.
PISA er alþjóðlegt könnunarpróf á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar [OECD] sem mælir lesskilning 15 ára nemenda og læsi þeirra á stærðfræði og náttúruvísindi. Síðasta könnunin var gerð árið 2018. Niðurstaða bendir til að alvarlegar brotalamir sé að finna í íslensku menntakerfi.
Gott, öflugt og fjölbreytt menntakerfi er mikilvægur hornsteinn íslensks samfélags. Menntun er spurning um samkeppnishæfni landsins og þar með lífskjara, ekki síður en mikilvirkasta tæki til jöfnuðar. Grunnskólinn er undirstaða alls í menntamálum þjóðarinnar. Vísbendingar um brotalamir við menntun grunnskólabarna ber að taka alvarlega án þess að mála allt svörtum litum.

Wednesday Oct 27, 2021
Gegn eigendum lítilla fyrirtækja
Wednesday Oct 27, 2021
Wednesday Oct 27, 2021
Aðeins fjögur lönd innan OECD leggja á stóreignaskatt / auðlegðarskatt - Noregur, Kólumbía, Spánn og Sviss. Á undanförnum áratugum hafa æ fleiri lönd horfið frá slíkri skattheimtu og horfa fremur til þess að skattleggja flæði fjármagns en stöðu. Fyrir þessu eru margar ástæður enda skatturinn óskilvirkur, erfitt er að skilgreina skattstofninn og skattheimtan skilað litlu en valdið efnahagslegum skaða. Að mati OECD eru í besta falli takmörkuð rök fyrir því að leggja auðlegðarskatt til viðbótar við erfðafjárskatta og fjármagnstekjuskatt, hvort sem horft er til skilvirkni eða jöfnuðar.
Að þessu sinni verður fjallað um hugmyndir um að leggja að nýju á stóreignaskatt á hreina eign einstaklinga og því haldið fram að um efnahagslega firru sé að ræða sem mun draga úr fjárfestingum og vilja einstaklinga til efnahagslegra athafna. Skatturinn er aðför að eigendum lítilla og meðalstórra fyrirtækja, refsar ungu fólki sérstaklega og ýtir undir fjármagnsflótta.

Monday Oct 25, 2021
Sjálfstæðir fjölmiðlar í súrefnisvél
Monday Oct 25, 2021
Monday Oct 25, 2021
Ríkisútvarpið hefur notið þess að faðmur flestra stjórnmálamanna er mjúkur og hlýr. Í hugum þeirra á allt umhverfi frjálsra fjölmiðla að mótast af hagsmunum ríkisrekna fjölmiðlafyrirtækisins. Ríkisstyrkir til sjálfstæðra fjölmiðla eru því ekki annað en fórnarkostnaður vegna Ríkisútvarpsins, – skjólveggur um Efstaleiti gegn vindum breytinga og framþróunar.
Formaður Blaðamannafélagsins heldur því fram að fjölmiðlar verði ekki til án ríkisstyrkja. Nöturleg framtíðarsýn.

Sunday Oct 24, 2021
Erfið og flókin brúarsmíði
Sunday Oct 24, 2021
Sunday Oct 24, 2021
Með hliðsjón af úrslitum kosninganna væri fráleitt annað en að forystumenn stjórnarflokkanna láti reyna á það hvort ekki séu forsendur til að halda samstarfinu áfram og það hafa þeir gert síðustu vikurnar. En verkefnið er langt í frá einfalt. Þrátt fyrir allt er hugmyndafræðilegur ágreiningur verulegur, allt frá skipulagi heilbrigðiskerfisins til orkunýtingar og orkuöflunar, frá sköttum til ríkisrekstrar, frá þjóðgörðum til skipulagsmála, frá refsingum og þvingunum í loftslagsmálum til jákvæðra hvata og nýtingar tækifæra í orkuskiptum. Forystumenn stjórnarflokkanna þurfa að leiða ágreining í þessum málum og fleirum „í jörð“ ef ákveðið verður að endurnýja samstarfið. Niðurstöður kosninganna verða hins vegar illa túlkaðar með öðrum hætti en þeim að til þess hafi formenn stjórnarflokkanna skýrt umboð meirihluta kjósenda.
Fáum getur dulist að í mörgum málum er langt á milli stjórnarflokkanna. Brúarsmíðin verður flókin og krefst útsjónarsemi og lagni smiðsins. Sá trúnaður og traust sem ríkt hefur á milli forystumanna stjórnarflokkanna hjálpar.
Um þetta og niðurstöðu kosninganna er fjallað að þessu sinni.

Sunday Sep 12, 2021
Af bílslysi og gölluðu frumvarpi
Sunday Sep 12, 2021
Sunday Sep 12, 2021
Eitt helsta loforð vinstri stjórnarinnar 2009 til 2013 – ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, var að endurskoða lög um stjórn fiskveiða. Í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar sem oftast er kennd við Jónönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússonar var sagt að markmiðið væri að „skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar“ og um leið að „leggja grunn „að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka“.
Vægt er til orða tekið að halda því fram að ríkisstjórninni hafi verið mislagðar hendur við að hrinda þessu stefnumáli sínu í framkvæmd. Tillögum sáttanefndar var hent út í hafsauga, álit sérfræðinga var hundsað og þess í stað reynt að þvingja breytingum í gegnum þingið. En ríkisstjórnin sigldi á sker og ráðherrar vildu ekki kannst við neitt. Forsætisráðherra sagði frumvarp eigin ríkisstjórnar vera að mörgu leyti gallað og annars sagði að um bílslys hefði verið að ræða.

Sunday Sep 05, 2021
Skattheimtuflokkarnir
Sunday Sep 05, 2021
Sunday Sep 05, 2021
Lausn vinstri ríkisstjórnarinnar 2009 til 2013 við vanda ríkissjóðs var einföld: Skattar voru hækkaðir og útgjöld til velferðarmála skorin niður.
Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem gjarnan er kennd við Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon, en kenndi sjálfa sig við Norræna velferð, gerði nær 200 breytingar á sköttum á valdatíma sínum, - skattar jafnt á einstaklinga og fyrirtæki voru hækkaðir. Nær ógjörningur var fyrir almenning eða stjórnendur fyrirtækja að fylgjast með sífelldum breytingum.
Launafólk varð harkalega fyrir barðinu á skattastefnunni. Skattprósenta var hækkuð og tekjutenging barnabóta aukin og tenging persónuafsláttar við vísitölu neysluverðs afnumin.
Þingmenn vinstri stjórnarinnar fór í keppni við að boða sífellt hærri skatta - ekki síst á launatekjur. Svipaður söngur heyrist nú í aðdraganda kosninga.

Monday Aug 30, 2021
Hugmyndafræði öfundar og átaka
Monday Aug 30, 2021
Monday Aug 30, 2021
Baráttan um hylli kjósenda er margbreytileg en ekki síbreytileg – aðeins aðferðirnar breytast í takt við tæknina.
Margir stjórnmálamenn eru sannfærðir um að hægt sé að ná verulegum árangri með því að ýta undir öfund og tortryggni meðal almennings. Raunar byggir hugmyndafræði sumra þeirra hreinlega á öfund, sundurþykkju og átökum þar sem nágrönnum er att saman, stétt gegn stétt, landbyggð gegn höfuðborg. Þetta er hugmyndafræði sem rekur fleyg milli þeirra sem yngri eru og þeirra eldri, milli launafólk og atvinnurekenda.

Monday Aug 16, 2021
Þolgæði, úthald, kraftur
Monday Aug 16, 2021
Monday Aug 16, 2021
Ein helsta áskorun sem við Íslendingar þurfum að takast á við er að auka framleiðni á öllum sviðum, jafnt í opinbera geiranum sem og í atvinnulífinu öllu. Strangar reglugerðir kæfa samkeppni. Hindranir fyrir nýja innlenda eða erlenda aðila inn á markað eru miklar og það kemur í veg fyrir samkeppni. Þung stjórnsýslubyrði og umfangsmiklar og oft flóknar leyfisveitingar og leyfiskerfi virka sem vörn fyrir þá sem eru fyrir á fleti en draga úr frumkvöðlum og gera sprotafyrirtækjum erfitt fyrir.
Ég hef í gegnum árin reynt að vekja athygli á því að fjárstjórn ríkisins snúist ekki síst um að nýta takmarkaða fjármuni með skynsamlegum hætti. Forgangsröðun útgjalda, skipulag ríkisrekstrar og hvernig opinber þjónusta er skipulögð skiptir almenning æ meira máli. Hvernig sameiginlegir fjármunir og eignir eru nýtt í þau verkefni sem við höfum falið ríkinu að annast og/eða fjármagna er mikilvægara fyrir almenning en að hámarka tekjur sem renna í gegnum ríkiskassann.

Thursday Jul 29, 2021
Háðsádeilur í þjóðfélögum skortsins
Thursday Jul 29, 2021
Thursday Jul 29, 2021
Kennari spyr nemanda: „Hver er móðir þín og hver er faðir þinn?
Nemandinn: Móðir mín er Rússland en faðir minn Stalín.
„Mjög gott,“ segir kennarinn. „Og hvað langar þig til að verða þegar þú verður stór“
„Munaðarleysingi“ svarar nemandinn.
Háðsádeilur, skopsögur, brandarar eða satírur, voru hluti af daglegu lífi almennings í Sovétríkjunum og leppríkjum þeirra, undir ógnarstjórn kommúnista. Hið sama á við um kúgunarstjórnir víða um heim hvort sem þær kenna sig við kommúnisma eða sósíalisma. Sögurnar eru ádeila á ríkjandi stjórnarfar og veita innsýn og oft betri skilning á samfélög kúgunar, en langar fréttaskýringar eða fræðigreinar.
Fyrir venjulegt fólk sem býr við ógnarstjórn sósíalista hafa brandarar og háð verið mikilvæg samskiptatæki sem mynda farveg til að tjá gremju, reiði og fyrirlitningu á stjórnarfarinu. Í þjóðfélögum skortsins verður háðsádeilan örlítil bylting almúgans sem berst í bökkum við að útvega sér hversdagslegar nauðsynjavörur og lifir í stöðugum ótta.

Tuesday Jul 20, 2021
Áskoranir og niðurstaða kosninga
Tuesday Jul 20, 2021
Tuesday Jul 20, 2021
Ein forsenda þess að Sjálfstæðisflokkurinn taki þátt í ríkisstjórn er að málefnasamningur og verk ríkisstjórnar, endurspegli skilning á samhengi skatta, ríkisútgjalda, hagvaxtar og velsældar. Að samkeppnishæfni þjóðar ráðist ekki síst af öflugum innviðum, hófsemd í opinberum álögum, greiðu aðgengi að erlendum mörkuðum, skilvirkni í stjórnkerfinu og hagkvæmum ríkisrekstri.
Þegar tekin er afstaða til þess hvort rétt sé að taka þátt í myndun nýrrar ríkisstjórnar skiptir margt máli. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki tekið þátt í ríkisstjórn sem heldur áfram að ríkisvæða heilbrigðiskerfið. En fleira skiptir máli. Uppbygging og endurskipulagning menntakerfisins er eitt. Skynsamleg og sjálfbær nýting náttúruauðlinda annað. Jákvætt viðhorf til atvinnulífsins er skilyrði. Að gera launafólki kleift að taka með beinum hætti þátt í rekstri fyrirtækja er mikilvægt og byggja þannig fleiri stoðir undir fjárhagslegt sjálfstæði heimilanna, er lykillinn að hjarta sjálfstæðismanna. Og fleira skiptir miklu, en verður ótalið að þessu sinni.