Episodes

Sunday Mar 28, 2021
Þegar þjóð er í höftum
Sunday Mar 28, 2021
Sunday Mar 28, 2021
Eftir að hinni eiginlegu sjálfstæðisbaráttu lauk með stofnun lýðveldisins árið 1944, hafa atvinnufrelsi, réttindi einstaklinga, forræðishyggja og haftakerfi verið þungamiðja í pólitískum átökum hér á landi. Þótt oft hafi gengið hægt að hrinda stefnumálum í framkvæmd hefur hugmyndafræði frjálsræðis hægt og bítandi náð yfirhöndinni þótt á stundum verði bakslag.
Múrar haftabúskapar hrundu ekki af sjálfu sér. Verslunarfrelsi fékkst ekki án átaka. Innflutningsskrifstofa ríkisins, sem útdeildi leyfum til innflutnings, var ekki lögð niður fyrr en í fulla hnefana. Það þurfti margar og ítrekaðar tilraunir til að tryggja frelsi á öldum ljósvakans – afnám einokunar ríkisins á útvarps- og sjónvarpsrekstri mætti harðri andstöðu. Sjálfstæðisflokkurinn einn stóð einhuga að því að leyfa vindum frelsis að leika um útvarp og sjónvarp. Það þurfi einbeittan vilja til að brjóta einokun ríkisins á fjarskiptamarkaði á bak aftur og innleiða samkeppni.
Það er á grunni hugmyndafræði einstaklings- og athafnafrelsis sem einkaaðilar hafa fengið að blómstra innan menntakerfisins; Hjallastefnan, Háskólinn í Reykjavík, Verslunarskólinn, Tækniskólinn svo dæmi séu nefnd. Með því að innleiða fjölbreytni inn í menntakerfið hefur möguleikum ungs fólks verið fjölgað.
Dæmin eru miklu fleiri, stór og smá.
Árið 1988 kom út bókin Þjóð í hafti eftir Jakob F. Ásgeirsson, rithöfund og sagnfræðing. Ég sæki efnivið til þessarar stórmerku bókar sem allir ættu að lesa.

Wednesday Mar 24, 2021
Flatur tekjuskattur og saga af tíu vinum
Wednesday Mar 24, 2021
Wednesday Mar 24, 2021
Ég hef lengi verið sannfærður um að tekjuskattskerfi einstaklinga sé ranglátt og vinni gegn þeim markmiðum sem stjórnmálamenn segjast vilja ná; að vera tekjujöfnunartæki á sama tíma og tekjur ríkisins séu tryggðar, jafnvel hámarkaðar.
Þrepaskipt tekjuskattskerfi með tekjutengingum og háum jaðarsköttum er með innbyggðan galla sem vinnur gegn launafólki ekki síst því sem er með lægstu tekjurnar. Halda má því fram að eftir því sem staða fólks á vinnumarkaði er lakari því óréttlátara er tekjuskattskerfið.
Fyrir nokkrum árum setti ég fram tillögu um flatan tekjuskatt – eina skattprósentu óháð tekjum – en um leið taka upp nýjan persónuafsláttur sem lækki eftir því sem tekjur hækka. Í slíku kerfi er réttlætanlegt að ónýttur persónuafsláttur sé greiddur út – s.s. tekjuskattur þeirra sem lakast standa verður neikvæður. Um þetta er fjallað að þessu sinni og um leið sögð saga af tíu vinum og hvernig þrepaskiptin í skattkerfinu virkar.

Friday Mar 05, 2021
Ríkishyggja og fjárhagslegt sjálfstæði
Friday Mar 05, 2021
Friday Mar 05, 2021
Mörgum finnst það merki um ómerkilegan hugsanagang smáborgarans að láta sig dreyma um að launafólk geti tekið virkan þátt í atvinnulífinu með því að eignast í fyrirtækjum, litlum og stórum. Tilraunir til að ryðja braut launafólks inn í atvinnulífið m.a. með skattalegum hvötum eru eitur í beinum þeirra.
Ég hef áður vakið athygli á því hvernig skipulega er alið á fjandskap í garð atvinnulífsins, ekki síst sjávarútvegsins. Jafnvel stjórnmálamenn, sem á hátíðarstundum segjast talsmenn öflugs atvinnulífs, falla í pólitískan forarpytt – popúlisma – og taka þátt í að kynda undir tortryggni og andúð í garð einstakra fyrirtækja eða atvinnugreina.

Saturday Feb 13, 2021
Að meitla hugsjónir og móta stefnu
Saturday Feb 13, 2021
Saturday Feb 13, 2021
Allt frá stofnun Sjálfstæðisflokksins árið 1929 hefur það verið styrkur flokksins að hafa á að skipa öflugum hugsjónamönnum, sem höfðu hæfileika og getu til að meitla hugsjónir og þróa stefnuna í takt við nýjar áskoranir. Þessir hugsjónamenn ýttu undir frjóa hugsun og rökræður – gerðu sér grein fyrir að einstaklingarnir eru mismunandi, með ólíkar þarfir, þrár og hæfileika.
Jóhann Hafstein, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var einn þessara hugsjónamanna. Birgir Kjaran, þingmaður, hagfræðingur, rithöfundur og útgefandi, var annar. Báðir börðust þeir, ásamt örðum Sjálfstæðismönnum, fyrir jöfnum lífsmöguleikum allra og afnámi hvers konar sérréttinda.

Monday Feb 08, 2021
Fræðimaður og stjórnmálamaður: Ólafur Björnsson
Monday Feb 08, 2021
Monday Feb 08, 2021
Ólafur Björnsson, prófessor í hagfræði, sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1956 til 1971. Það var hins vegar ekki sjálfgefið fyrir fræðimanninn að hefja bein afskipti af stjórnmálum. Hann gerði grein fyrir ástæðum þess í blaðagrein í aðdraganda kosninganna 1956.
Ólafur var einn öflugasti talsmaður einstaklingsfrelsis og harður andstæðingur hafta og opinberra afskipta af atvinnulífinu.
Á kosningaári er ekki úr vegi að kíkja aðeins í stóra kistu Ólafs Björnssonar.

Wednesday Feb 03, 2021
„Gildi og beiting samtakamáttarins"
Wednesday Feb 03, 2021
Wednesday Feb 03, 2021
Ég sæki oft í kistu Bjarna Benediktssonar eldri. Að þessu sinni í grein sem hann skrifaði árið 1956 þar sem hann fjallaði um mikilvægi félaga og samtaka en um leið hafði hann uppi varnarðarorð um misbeitingu þeirra. Bjarni var að nokkru á svipuðum nótum í áramótaávarpi sem forsætisráðherra árið 1963.
„Samtakamátturinn hefur áreiðanlega unnið stórvirki. Ýmislegt, sem hér hefur verið best gert, væri enn óunnið, ef honum hefði ekki verið beitt. En hefur honum ætíð verið beitt í rétta átt? Eða hafa í skjóli hans orðið átök og deilur, sem engum koma að gagni?"

Friday Jan 29, 2021
Hvað á ríkið að gera?
Friday Jan 29, 2021
Friday Jan 29, 2021
Með réttu má segja að ríkið fylgi okkar frá vöggu til grafar. Flestir fæðast á fæðingardeildum sjúkrahúsa sem rekin eru af ríkinu, hljóta menntun sem greidd er úr sameiginlegum sjóði. Nær allir, ef ekki allir Íslendingar njóta aðstoðar hins opinbera; þegar veikindi steðja að, atvinnuleysi, slys, fátækt, örorka eða þegar farið er á eftirlaun. Öll greiðum við skatta, ef ekki af tekjum þá óbeint þegar við kaupum í matinn eða setjum bensín á bílinn. Stór hluti þjóðarinnar er í vinnu hjá hinu opinbera, þúsundir eru í vinnu við að þjónusta opinbera aðila og hinir eiga mikið undir ríkinu komið. Við keyrum öll um götur og vegi sem lagðir hafa verið fyrir almennafé, losnum við skólp í gegnum sameiginleg holræsi, fáum vatn og rafmagn frá opinberum aðilum.
Á hverjum degi gerum við ákveðnar kröfur til þeirra sem standa okkur næst; til fjölskyldunnar, til vinnufélaganna og til náinna vina. Við erum tilbúin til að beita aga, gera kröfur um vinnubrögð, dugnað og útsjónarsemi. Við ætlumst til þess að orð standi. Því miður gerum við ekki sömu kröfur til ríkisins og við gerum til okkar nánustu.

Friday Jan 22, 2021
Baráttan gegn hugmyndum Davíðs um dreift eignarhald
Friday Jan 22, 2021
Friday Jan 22, 2021
Í tengslum við væntanlega sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka hafa eðlilega orðið umræður um kosti þess og galla að tryggja dreift eignarhald á helstu fjármálafyrirtækjum landsins. Forvitnilegt er að rifja upp baráttu Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, fyrir lagasetningu til að tryggja dreift eignarhald og valddreifingu í fjármálakerfinu.
Þegar ræður og viðtöl fyrir og um síðustu aldamót eru skoðuð er greinilegt að Davíð var sannfærður um að rétt væri að setja lög um hámarks eignarhlut einstakra hluthafa í fjármálafyrirtækjum. Ekki sé „æskilegt að menn hafi á tilfinningunni að það séu einhver önnur sjónarmið, sem ráði stefnu banka, en almenn arðsemissjónarmið, eins og einhverjir þröngir hagsmunir ráðandi hóps," sagði Davíð í viðtali. Hann hafði hafði miklar áhyggjur af valdasamþjöppun í viðskiptalífinu en skoðanir hans urðu undir. Pólitískir andstæðingar Davíðs börgðust hart gegn hugmyndum um að lögfesta dreit eignarhald fjármálafyrirtækja.

Friday Jan 08, 2021
Þumalputtaregla á kosningaári
Friday Jan 08, 2021
Friday Jan 08, 2021
Með dyggri aðstoð hagfræðinga, hætta stjórnmálamenn líklega aldrei að deila um hvernig skynsamlegast sé að bregðast við efnahagslegum samdrætti. Jafn fráleitt og það hljómar eru margir þeirrar skoðunar að best sé að minnka súrefnið til atvinnulífsins og heimilanna, með hækkun skatta og gjalda. Ekki eru mörg ár síðan ríkisstjórn brást við efnahagslegu áfalli með þeim hætti. En jafnvel einfaldur lærdómur vefst fyrir mörgum, ekki síst þeim sem telja ríkið upphaf og endi alls – hina eiginlegu uppsprettu verðmæta.
Í upphafi kosningaárs liggur fyrir að mikilvægasta verkefni stjórnvalda er að tryggja örugga og hraða bólusetningu landsmanna gegn kórónuveirunni. Efnahagsleg velferð er í húfi og þar með geta okkar til að standa undir góðum lífskjörum og öflugu velferðarsamfélagi til framtíðar. Við höfum ekki endalaust úthald til verja fyrirtæki, heimili og velferðarkerfið með þeim hætti sem gert hefur verið síðustu mánuði.
Til einföldunar getum við stuðst við þumalputtareglu. Hver dagur þar sem barist er við kórónuveiruna og efnahagslífið er lamað með þeim hætti sem raun er, kostar ríkissjóð um einn milljarð króna – hver vika sjö milljarða. Það má því halda því fram að janúar kosti sameiginlegan sjóð okkar 30 milljarða, annars vegar í auknum útgjöldum og hins vegar lægri tekjum. Að óbreyttu bætast 28 milljarðar við í febrúar. Og þannig koll af kolli uns hjólin komast aftur af stað. Þá er ekki talinn með kostnaður sveitarfélaga, fyrirtækja eða heimila, eða sá efnahagslegi fórnarkostnaður sem er samfara faraldrinum. Lakari lífsgæði og félagslegur kostnaður verða aldrei metin til fjár.

Wednesday Dec 23, 2020
Það „besta sem við geymum í okkur; gjafmildi, ástúð og kærleika“
Wednesday Dec 23, 2020
Wednesday Dec 23, 2020
Ég er af þeirri kynslóð sem naut þeirrar gæfu að alast upp og mótast þegar herra Sigurbjörn Einarsson sat á stóli biskups. Djúpstæð trúarsannfæring einkenndi allt hans mikla starf. Án hroka eða yfirlætis. Í huga Sigurbjarnar er kristin trú „ekkert að miklast af“ heldur viljinn að „lofa Guði að lýsa á gluggann, inn í hjartað“.
Í huga Sigurbjarnar laðar boðskapur jólahátíðarinnar fram það „besta sem við geymum í okkur; gjafmildi, ástúð og kærleika“. Hann efaðist aldrei um boðskapinn eða þýðingu jólanna fyrir manninn.
Björn Jónsson - Björn í Bæ (1902-1989) var ekki prestlærður en trúaður maður. Í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið 1982 benti hann á að þótt við fáum ekki svar við öllum spurningum sé vert „að hafa í huga hvílík reginvilla það er að vera trúlaus á handleiðslu hins góða, sem við hljótum að trúa að sé til og það jafnvel í okkur sjálfum, ef vel er að gáð“.
Hátíð ljóssins er friðarstund sem vekur vonir þar sem mætast hið jarðneska og hið himneska, kærleikur og minningar. Við fögnum komu frelsarans, þökkum fyrir það sem var og það sem er og verður, hugum að ástvinum okkar og reynum að létta undir með þeim sem höllum fæti standa.
Ég óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.