Episodes
Saturday Feb 13, 2021
Að meitla hugsjónir og móta stefnu
Saturday Feb 13, 2021
Saturday Feb 13, 2021
Allt frá stofnun Sjálfstæðisflokksins árið 1929 hefur það verið styrkur flokksins að hafa á að skipa öflugum hugsjónamönnum, sem höfðu hæfileika og getu til að meitla hugsjónir og þróa stefnuna í takt við nýjar áskoranir. Þessir hugsjónamenn ýttu undir frjóa hugsun og rökræður – gerðu sér grein fyrir að einstaklingarnir eru mismunandi, með ólíkar þarfir, þrár og hæfileika.
Jóhann Hafstein, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var einn þessara hugsjónamanna. Birgir Kjaran, þingmaður, hagfræðingur, rithöfundur og útgefandi, var annar. Báðir börðust þeir, ásamt örðum Sjálfstæðismönnum, fyrir jöfnum lífsmöguleikum allra og afnámi hvers konar sérréttinda.
Monday Feb 08, 2021
Fræðimaður og stjórnmálamaður: Ólafur Björnsson
Monday Feb 08, 2021
Monday Feb 08, 2021
Ólafur Björnsson, prófessor í hagfræði, sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1956 til 1971. Það var hins vegar ekki sjálfgefið fyrir fræðimanninn að hefja bein afskipti af stjórnmálum. Hann gerði grein fyrir ástæðum þess í blaðagrein í aðdraganda kosninganna 1956.
Ólafur var einn öflugasti talsmaður einstaklingsfrelsis og harður andstæðingur hafta og opinberra afskipta af atvinnulífinu.
Á kosningaári er ekki úr vegi að kíkja aðeins í stóra kistu Ólafs Björnssonar.
Wednesday Feb 03, 2021
„Gildi og beiting samtakamáttarins"
Wednesday Feb 03, 2021
Wednesday Feb 03, 2021
Ég sæki oft í kistu Bjarna Benediktssonar eldri. Að þessu sinni í grein sem hann skrifaði árið 1956 þar sem hann fjallaði um mikilvægi félaga og samtaka en um leið hafði hann uppi varnarðarorð um misbeitingu þeirra. Bjarni var að nokkru á svipuðum nótum í áramótaávarpi sem forsætisráðherra árið 1963.
„Samtakamátturinn hefur áreiðanlega unnið stórvirki. Ýmislegt, sem hér hefur verið best gert, væri enn óunnið, ef honum hefði ekki verið beitt. En hefur honum ætíð verið beitt í rétta átt? Eða hafa í skjóli hans orðið átök og deilur, sem engum koma að gagni?"
Friday Jan 29, 2021
Hvað á ríkið að gera?
Friday Jan 29, 2021
Friday Jan 29, 2021
Með réttu má segja að ríkið fylgi okkar frá vöggu til grafar. Flestir fæðast á fæðingardeildum sjúkrahúsa sem rekin eru af ríkinu, hljóta menntun sem greidd er úr sameiginlegum sjóði. Nær allir, ef ekki allir Íslendingar njóta aðstoðar hins opinbera; þegar veikindi steðja að, atvinnuleysi, slys, fátækt, örorka eða þegar farið er á eftirlaun. Öll greiðum við skatta, ef ekki af tekjum þá óbeint þegar við kaupum í matinn eða setjum bensín á bílinn. Stór hluti þjóðarinnar er í vinnu hjá hinu opinbera, þúsundir eru í vinnu við að þjónusta opinbera aðila og hinir eiga mikið undir ríkinu komið. Við keyrum öll um götur og vegi sem lagðir hafa verið fyrir almennafé, losnum við skólp í gegnum sameiginleg holræsi, fáum vatn og rafmagn frá opinberum aðilum.
Á hverjum degi gerum við ákveðnar kröfur til þeirra sem standa okkur næst; til fjölskyldunnar, til vinnufélaganna og til náinna vina. Við erum tilbúin til að beita aga, gera kröfur um vinnubrögð, dugnað og útsjónarsemi. Við ætlumst til þess að orð standi. Því miður gerum við ekki sömu kröfur til ríkisins og við gerum til okkar nánustu.
Friday Jan 22, 2021
Baráttan gegn hugmyndum Davíðs um dreift eignarhald
Friday Jan 22, 2021
Friday Jan 22, 2021
Í tengslum við væntanlega sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka hafa eðlilega orðið umræður um kosti þess og galla að tryggja dreift eignarhald á helstu fjármálafyrirtækjum landsins. Forvitnilegt er að rifja upp baráttu Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, fyrir lagasetningu til að tryggja dreift eignarhald og valddreifingu í fjármálakerfinu.
Þegar ræður og viðtöl fyrir og um síðustu aldamót eru skoðuð er greinilegt að Davíð var sannfærður um að rétt væri að setja lög um hámarks eignarhlut einstakra hluthafa í fjármálafyrirtækjum. Ekki sé „æskilegt að menn hafi á tilfinningunni að það séu einhver önnur sjónarmið, sem ráði stefnu banka, en almenn arðsemissjónarmið, eins og einhverjir þröngir hagsmunir ráðandi hóps," sagði Davíð í viðtali. Hann hafði hafði miklar áhyggjur af valdasamþjöppun í viðskiptalífinu en skoðanir hans urðu undir. Pólitískir andstæðingar Davíðs börgðust hart gegn hugmyndum um að lögfesta dreit eignarhald fjármálafyrirtækja.
Friday Jan 08, 2021
Þumalputtaregla á kosningaári
Friday Jan 08, 2021
Friday Jan 08, 2021
Með dyggri aðstoð hagfræðinga, hætta stjórnmálamenn líklega aldrei að deila um hvernig skynsamlegast sé að bregðast við efnahagslegum samdrætti. Jafn fráleitt og það hljómar eru margir þeirrar skoðunar að best sé að minnka súrefnið til atvinnulífsins og heimilanna, með hækkun skatta og gjalda. Ekki eru mörg ár síðan ríkisstjórn brást við efnahagslegu áfalli með þeim hætti. En jafnvel einfaldur lærdómur vefst fyrir mörgum, ekki síst þeim sem telja ríkið upphaf og endi alls – hina eiginlegu uppsprettu verðmæta.
Í upphafi kosningaárs liggur fyrir að mikilvægasta verkefni stjórnvalda er að tryggja örugga og hraða bólusetningu landsmanna gegn kórónuveirunni. Efnahagsleg velferð er í húfi og þar með geta okkar til að standa undir góðum lífskjörum og öflugu velferðarsamfélagi til framtíðar. Við höfum ekki endalaust úthald til verja fyrirtæki, heimili og velferðarkerfið með þeim hætti sem gert hefur verið síðustu mánuði.
Til einföldunar getum við stuðst við þumalputtareglu. Hver dagur þar sem barist er við kórónuveiruna og efnahagslífið er lamað með þeim hætti sem raun er, kostar ríkissjóð um einn milljarð króna – hver vika sjö milljarða. Það má því halda því fram að janúar kosti sameiginlegan sjóð okkar 30 milljarða, annars vegar í auknum útgjöldum og hins vegar lægri tekjum. Að óbreyttu bætast 28 milljarðar við í febrúar. Og þannig koll af kolli uns hjólin komast aftur af stað. Þá er ekki talinn með kostnaður sveitarfélaga, fyrirtækja eða heimila, eða sá efnahagslegi fórnarkostnaður sem er samfara faraldrinum. Lakari lífsgæði og félagslegur kostnaður verða aldrei metin til fjár.
Wednesday Dec 23, 2020
Það „besta sem við geymum í okkur; gjafmildi, ástúð og kærleika“
Wednesday Dec 23, 2020
Wednesday Dec 23, 2020
Ég er af þeirri kynslóð sem naut þeirrar gæfu að alast upp og mótast þegar herra Sigurbjörn Einarsson sat á stóli biskups. Djúpstæð trúarsannfæring einkenndi allt hans mikla starf. Án hroka eða yfirlætis. Í huga Sigurbjarnar er kristin trú „ekkert að miklast af“ heldur viljinn að „lofa Guði að lýsa á gluggann, inn í hjartað“.
Í huga Sigurbjarnar laðar boðskapur jólahátíðarinnar fram það „besta sem við geymum í okkur; gjafmildi, ástúð og kærleika“. Hann efaðist aldrei um boðskapinn eða þýðingu jólanna fyrir manninn.
Björn Jónsson - Björn í Bæ (1902-1989) var ekki prestlærður en trúaður maður. Í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið 1982 benti hann á að þótt við fáum ekki svar við öllum spurningum sé vert „að hafa í huga hvílík reginvilla það er að vera trúlaus á handleiðslu hins góða, sem við hljótum að trúa að sé til og það jafnvel í okkur sjálfum, ef vel er að gáð“.
Hátíð ljóssins er friðarstund sem vekur vonir þar sem mætast hið jarðneska og hið himneska, kærleikur og minningar. Við fögnum komu frelsarans, þökkum fyrir það sem var og það sem er og verður, hugum að ástvinum okkar og reynum að létta undir með þeim sem höllum fæti standa.
Ég óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Sunday Dec 20, 2020
Starfsmenn án landamæra - heilbrigðisstarfsmenn
Sunday Dec 20, 2020
Sunday Dec 20, 2020
Það hefur verið gæfa okkar Íslendinga að eiga fjölbreyttan hóp heilbrigðisstarfsmanna sem sótt hefur sérfræðimenntun, reynslu og þekkingu til annarra landa, en snúið aftur heim til starfa. En það er langt í frá sjálfgefið að ungt fólk sem leggur slíkt á sig ákveði að koma aftur og veita okkur þá þjónustu sem við þurfum á að halda. Hér ráða launakjör ekki öllu, heldur starfsaðstaðan sem er í boði en einnig valfrelsi um starfsvettvang. Það er ekki sérlega heillandi tilhugsun eftir margra ára nám og starfsmenntun að eiga þann eina kost að koma til starfa innan veggja ríkisrekstrar.
Læknar, hjúkrunarfræðingar og aðrir hæfileikaríkir heilbrigðisstarfsmenn vilja eiga sömu möguleika og allir aðrir til að stofna eigið fyrirtæki – verða sjálfstæðir atvinnurekendur. En andstaðan við einkaframtakið er djúpstæð meðal stjórnmálamanna stjórnlyndis.
Friday Dec 18, 2020
Gegn valdboði og miðstýringu
Friday Dec 18, 2020
Friday Dec 18, 2020
Löngunin til að stýra öllu frá 101-Reykjavík er sterk. Hætta er sú að valdið sogist úr heimabyggð til örfárra einstaklinga sem neita að skilja hvernig hægt er að lifa í sátt við náttúruna, verja hana og nýta auðlindir á sama tíma.
Hugmyndafræði valdboðsins sem liggur að baki lögþvingaðri sameiningu er ekki aðeins ógeðfelld heldur byggist hún á misskilningi og/eða vísvitandi blekkingum.
Thursday Dec 17, 2020
Spurning sem forðast er að svara
Thursday Dec 17, 2020
Thursday Dec 17, 2020
Síðustu 12 ár hafa skattgreiðendur látið ríkismiðlinum í té nær 46 milljarða króna á föstu verðlagi. Auglýsingatekjur, kostun og annar samkeppnisrekstur hefur skilað fyrirtækinu tæpum 24 milljörðum króna. Alls hefur Ríkisútvarpið því haft upp undir 70 milljarða úr að moða. Þá er ekki tekið tillit til beinna fjárframlaga úr ríkissjóði til að rétta af fjárhagsstöðu fyrirtækisins eða sérkennilegrar lóðasölu við Efstaleiti.
Það er merkilegt hve illa og harkalega er brugðist við þegar spurt er hvort önnur og betri leið sé ekki fær til að styðja við íslenska dagskrárgerð, menningu, listir og sögu, en að reka opinbert hlutafélag. Hvernig ætli íslensk kvikmyndaflóra, dagskrárgerð og menning liti út ef þessar greinar hefðu fengið 46 milljarða til sín síðustu 12 ár? Örugglega ekki frábreyttari. Líklega litríkari og öflugri.