Episodes

Wednesday Jan 29, 2020
Við eigum mikið undir
Wednesday Jan 29, 2020
Wednesday Jan 29, 2020
Fáar þjóðir eiga meira undir flugi en við Íslendingar. Efnahagslegt mikilvægi flugrekstrar er gríðarlegt - meira en flestir gera sér grein fyrir. Við eigum hins vegar mörg verkefni ókláruð til að tryggja undirstöður flugsins og þar með ferðaþjónustunnar. Þetta er ekki bara spurning um efnahagslegt mikilvægi heldur ekki síður öryggi.
Enginn þingmaður hefur betri innsýn og skilning á flugi og mikilvægi þess en Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Ég kom ekki að tómum kofanum hjá honum þegar við ræddum um hve við erum efnahagslega háð flugi og ferðaþjónustu.

Wednesday Jan 22, 2020
Blæðandi hjarta íhaldsmanns
Wednesday Jan 22, 2020
Wednesday Jan 22, 2020
Jack Kemp var maður drenglyndis í stjórnmálum. Hann taldi sig eiga pólitíska andstæðinga en enga pólitíska óvini. Í hverjum andstæðingi sá hann mögulega bandamenn og var óhræddur við að hrósa demókrötum og eiga við þá samvinnu til að vinna að hagsmunum almennings.
Ronald Reagan og Jack Kemp sannfærðu samherja sína í Repúblikanaflokknum um að með bjartsýni á efnahagslega framtíð væri hægt að ná eyrum og stuðningi kjósenda sem áður höfðu fylgt demókrötum að málum – allt frá verkamönnum til minnihlutahópa, frá fátækum fjölskyldum stórborganna til millistéttarinnar.

Monday Jan 20, 2020
Elítan, umræðustjórnar og almenningur
Monday Jan 20, 2020
Monday Jan 20, 2020
Líklegast eru „umræðustjórar“ til í flestum frjálsum samfélögum – fólk sem er sannfært um að það sé best til þess fallið að ákveðna um hvað skuli fjallað, hvað skuli krufið til mergjar í fjölmiðlum og hvert kastljósið skuli beinast hverju sinni. Umræðustjórarnir eru ófeimnir við að fella dóma yfir mönnum og málefnum og óhræddir við fordæma „rangar“ skoðanir.
Umræðustjórarnir eru eða vilja a.m.k. vera hluti af valdastéttinni – elítunni sem telur sig hafa meiri burði og þekkingu en almenningur til að ákveða rétt og rangt. Þröngur hópur embættismanna, sérfræðinga og vel menntaðra háskólamanna hafa lengi talið sér það skylt að „leiðbeina“ almenningi til að komast að réttri niðurstöðu. Umræðustjórnir leika undir og gefa oft tóninn.

Saturday Jan 18, 2020
Samvinna og áskoranir kynslóðanna
Saturday Jan 18, 2020
Saturday Jan 18, 2020
Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar er áskorun sem kynslóðirnar verða að mæta í sameiningu. Góðu fréttirnar eru að við stöndum sterka að vígi efnahagslega, lífeyriskerfið með því öflugasta sem þekkist í heiminum, lífaldur er að hækka og lífsgæðin að aukast. Vondu fréttirnar eru þær að hlutfallslega verða æ færri á vinnumarkaði.
Við þurfum hugarfarsbreytingu. Ungt fólk verður að virða rétt þeirra eldri til að taka virkan þátt í vinnumarkaðinum og skynja þau verðmæti sem fólgin eru í reynslu og þekkingu. Að sama skapi verða þeir eldri að gefa yngra fólki svigrúm, vera opnir fyrir nýjum hugmyndum og aðferðum. Hugarfarsbreytingin felst í aukinni samvinnu milli kynslóða.

Wednesday Jan 15, 2020
Grænir skattar: Góð hugmynd?
Wednesday Jan 15, 2020
Wednesday Jan 15, 2020
Það hljómar ekki illa að leggja á græna skatta enda allt vænt sem er vel grænt. Umhverfisskattar eru ekki nýtt fyrirbæri en með aukinni vitund um náttúruvernd hefur verið lögð áhersla á að slíkir skattar skuli innheimtir. Vísbendingar eru um að grænir skattar hafi neikvæð áhrif á tekjulága hópa. Skattarnir leggjast hlutfallslega þyngra á tekjulága en hátekjufólk. Ekki má heldur gleyma því að möguleikar fólks til að breyta hegðun sinni eru oft í réttu hlutfalli við tekjur. Hátekjumaðurinn á auðveldara með að taka strax þátt í orkuskiptum með því að kaupa sér rafmagnsbíl (og njóta raunar töluverðra ívilnana) en unga fjölskyldan sem hefur ekki efni á öðru en halda áfram að nota gamla bensínfjölskyldubílinn.
Sé tilgangurinn að baki grænum sköttum að stuðla að breyttri hegðun fyrirtækja og einstaklinga til að ná fram ákveðnum markmiðum í umhverfismálum, liggur það í hlutarins eðli að skattarnir skila æ minni tekjum eftir því sem árin líða.

Monday Jan 06, 2020
Fábreytilegt líf án listar
Monday Jan 06, 2020
Monday Jan 06, 2020
Sagan kennir okkur að pólitískt sjálfstæði þjóðar byggist á sögu, tungu og menningu. Glati þjóð arfleifð sinni, mun hún fyrr fremur en síðar missa sjálfstæði sitt. Sá er þetta skrifar er að minnsta kosti sannfærður um að öflugt lista- og menningarlíf sé brjóstvörn fámennrar þjóðar – tryggi betur en margt annað fullveldið.
Lífið án listarinnar yrði fábreytilegt – grámyglulegt amstur þar sem hver dagur væri öðrum líkur. Listin og menningin eru krydd lífsins og andlegt fóður hvers og eins.
Margir telja nauðsynlegt að hið opinbera verji verulegum fjármunum til lista- og menningarstarfsemi. Á hverju ári er ákall um aukin framlög. Svo eru þeir til sem telja rétt að draga úr eða jafnvel hætta öllum opinberum stuðningi. Ég hef lengi verið sannfærður um að opinbert stuðningskerfi við íslenska listamenn þjóni ekki markmiðum um fjölbreytta og öfluga listastarfsemi. Kerfið vinnur á móti nýjum hugmyndum og hamlar því að nýtt blóð fái að renna um æðar listaheimsins.