May 29, 2021
Það er ekki sjálfgefið að taka ákvörðun um að sækjast eftir endurkjöri sem þingmaður. Ástríðan verður að vera fyrir hendi. Í stjórnmálum verður árangurinn lítill án sannfæringar og löngunar til að berjast fyrir framgangi hugmynda. Ástríðan, sannfæringin og löngunin er enn til staðar – og síst minni en áður. Stefnufesta er nauðsynleg en þolinmæði ekki síður því dropinn holar steininn. Baráttan fyrir frelsi einstaklingsins og fullveldi landsins heldur áfram. Í þeirri baráttu vil ég taka fullan þátt. Og þess vegna sækist ég eftir endurkjöri sem þingmaður Sjálfstæðisflokkksins og þess vegna óska ég eftir stuðningi félaga minna í annað sæti í prófkjöri í Suðvesturkjördæmi 10-12 júní næstkomandi.
May 13, 2021
Einföldun regluverksins laðar fram samkeppni og auðveldar athafnamönnum að láta til sín taka. Flókið regluverk og frumskógur skatta og gjalda er vörn hinna stóru – draga úr möguleikum framtaksmannsins til að bjóða nýja vöru og þjónustu. Við höfum séð hvernig róttækar breytingar á ýmsum sköttum og gjöldum hafa skilað sér í aukinni samkeppni sem neytendur hafa notið.
En eitt er að einfalda reglur og draga úr skattbyrði. Annað að tryggja skilvirkni í samkeppniseftirliti sem er mikilvæg forsenda þess að ábati samkeppninnar skili sér til neytenda. Breytingar á samkeppnislögum á liðnu ári eru mikilvægt skref í þessa átt, en þó aðeins skref.
Stór hluti íslensk efnahagslífs er hins vegar án samkeppni eða líður fyrir mjög takmarkaða samkeppni. Samkeppnisleysið leiðir til sóunar á mannafli og fjármagni, hærra verðs, lakari þjónustu og verri vöru. Nýsköpun er í böndum og framboð vöru og þjónustu verður einhæfari. Í stað þess að virkja krafta samkeppninnar kemur hið opinbera á hana böndum. Með aðgerðum eða aðgerðaleysi hafa ríkið og sveitarfélög hindrað samkeppni með margvíslegum hætti.