Óli Björn - Alltaf til hægri

Ef sjálfur ei leggur í sölurnar neitt …

December 25, 2019

Í sam­fé­lagi nú­tím­ans hef­ur trú­in verið tor­tryggð. Við sem tök­um und­ir með þjóðskáld­inu og trú­um á tvennt í heimi; Guð í al­heims­geimi og Guð í okk­ur sjálf­um, erum sögð ein­feldn­ing­ar og af sum­um jafn­vel hættu­leg. Í hraða nú­tím­ans er sú hætta fyr­ir hendi að við tök­um upp siði Bakka­bræðra sem töldu sig geta bjargað glugga­leysi með því að bera sól­ar­ljósið inn í bæ­inn. Í pre­dik­un í Hall­gríms­kirkju á öðrum degi jóla árið 2002 velti herra Sig­ur­björn Ein­ars­son bisk­up því fyr­ir sér af hverju krist­in trú ætti und­ir högg að sækja:

„Maður nú­tím­ans á erfitt með að skilja að það sé ein­hvers virði sem ekki þarf að kaupa eða kló­festa. Hann get­ur svo mikið sjálf­ur. Er það ekki þess vegna sem krist­in trú er svo lít­ils met­in af mörg­um? Hún er rétt eins og sól­in, sem bara gef­ur geisl­ana sína og heimt­ar ekk­ert annað en að fá að lýsa og verma og gefa líf.“

Séra Karl V. Matthíasson fékk mig til að flytja stutta hugvekju á öðrum sunnudegi aðventu í Guðríðarkirkju. Ég sótti í smiðju herra Sigurbjarnar Einarsson en sagði einnig frá afa mínum, Guðjóni bakara, sem 24 ára gamall kom ungri ekkju og fimm börnum hennar til aðstoðar. Og mér er lítil vísa séra Valdimars Briem hugleikinn:

Það engin er dyggð þótt þú elskir þá heitt

sem ástríki mesta þér veita.

Ef sjálfur ei leggur í sölurnar neitt

þá síst má það kærleikur heita.

Podbean App

Play this podcast on Podbean App