Episodes
Thursday May 13, 2021
Samkeppni, einföldun regluverks og skilvirkt eftirlit
Thursday May 13, 2021
Thursday May 13, 2021
Einföldun regluverksins laðar fram samkeppni og auðveldar athafnamönnum að láta til sín taka. Flókið regluverk og frumskógur skatta og gjalda er vörn hinna stóru – draga úr möguleikum framtaksmannsins til að bjóða nýja vöru og þjónustu. Við höfum séð hvernig róttækar breytingar á ýmsum sköttum og gjöldum hafa skilað sér í aukinni samkeppni sem neytendur hafa notið.
En eitt er að einfalda reglur og draga úr skattbyrði. Annað að tryggja skilvirkni í samkeppniseftirliti sem er mikilvæg forsenda þess að ábati samkeppninnar skili sér til neytenda. Breytingar á samkeppnislögum á liðnu ári eru mikilvægt skref í þessa átt, en þó aðeins skref.
Stór hluti íslensk efnahagslífs er hins vegar án samkeppni eða líður fyrir mjög takmarkaða samkeppni. Samkeppnisleysið leiðir til sóunar á mannafli og fjármagni, hærra verðs, lakari þjónustu og verri vöru. Nýsköpun er í böndum og framboð vöru og þjónustu verður einhæfari. Í stað þess að virkja krafta samkeppninnar kemur hið opinbera á hana böndum. Með aðgerðum eða aðgerðaleysi hafa ríkið og sveitarfélög hindrað samkeppni með margvíslegum hætti.
Wednesday Apr 28, 2021
„Stóra-lausnin"
Wednesday Apr 28, 2021
Wednesday Apr 28, 2021
Á sama tíma og Samfylkingin virðist hafa gefist upp á sínu helsta baráttumáli – aðild Íslands að Evrópusambandinu – hefur Viðreisn ákveðið að blása að nýju, eftir nokkurt hlé, í lúðra Brussels. Þingmenn Viðreisnar hafa lagt fram þingsályktun þar sem ríkisstjórninni er falið „að hefja undirbúning að endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu“.
Ekki er hægt að skilja greinargerð þingsályktunartillögunnar á annan hátt en að kórónuveirufaraldurinn hafi kveikt aftur vonir í ESB-hjörtum Viðreisnar. Fullyrt er að afleiðingar faraldursins hafi „gjörbreytt efnahagslegum aðstæðum og að Ísland þurfi þess vegna „að nýta öll möguleg tækifæri sem örvað geta nýsköpun, eflt viðskipti og styrkt hagvöxt“. Aukin aðljóðleg samvinna sé óhjákvæmileg og lokaskrefið „til fullrar aðildar að Evrópusambandinu er nærtækasti og áhrifaríkasti kosturinn í þessu efni“.
Rökstuðningur fyrir að aðild að Evrópusambandinu hafa því lítið breyst frá árinu 2009. Vantrúin á flest það sem er íslenskt er rauði þráðurinn. Í stað þess að móta stefnu í utanríkisviðskiptum sem hefur það að markmiðið að fjölga kostunum í samskiptum við aðrar þjóðir, er skipulega reynt að fækka þeim. „Stóra-lausnin“ átti að vera evra og Evrópusambandið.
Friday Apr 23, 2021
Fábreytileiki eða samvinna í heilbrigðisþjónustu
Friday Apr 23, 2021
Friday Apr 23, 2021
Hægt en örugglega er að verða til jarðvegur fyrir tvöfalt heilbrigðiskerfi. Þannig er grafið undan sáttmálanum um að tryggja öllum jafnan aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.
Tregða heilbrigðisyfirvalda að nýta kosti einkaframtaksins í heilbrigðisþjónustu og vinna að samþættingu og samvinnu opinbers rekstrar og sjálfstætt starfandi aðila, er óskiljanleg. Dregið er úr valmöguleikum fólks, unnið gegn hagkvæmri nýtingu fjármuna og álag á opinber sjúkrahús er aukið.
Hægt og bítandi er verið að hneppa heilbrigðisþjónustuna í fjötra frábreytileika og aukinna útgjalda. Við munum eiga stöðugt erfiðara með að fylgja öðrum þjóðum eftir á sviði heilbrigðisvísinda. Samkeppnishæfni okkar við að laða til landsins vel menntað og hæfileikaríkt heilbrigðisstarfsfólk, eftir langt sérnám, verður verri.
Sunday Apr 18, 2021
Baktjaldamakk og hreinsanir
Sunday Apr 18, 2021
Sunday Apr 18, 2021
Vinstri stjórnin 2009 til 2013, undir forystu Samfylkingarinnar, stundaði baktjaldamakk við umsókn að Evrópusambandinu, ætlaði að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu með samningum fyrir luktum dyrum og lokaði að sér. Þetta var dómur Árna Páls Árnasonar, fyrrverandi ráðherra og formanns Samfylkingarinnar. Dóminn felldi Árni Páll í bréfi til félaga í Samfylkingunni 11. febrúar 2016, en þar sagði meðal annars:
„Flokkurinn sem var stofnaður um ný vinnubrögð, íbúalýðræði og almannarétt lokaði að sér og forðaðist samtal og neitaði þjóðinni um aðkomu að stórum ákvörðunum í þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Hér er haldið til haga nokkrum þáttum í stjórnsýslu vinstri stjórnarinnar. Hvernig pólitískar hreinsanir fóru fram í stofnunum og innan stjórnsýslunnar. Hvernig ráðist var til atlögðu til einstaklinga sem ekki voru ráðamönnum þóknanlegir.
Wednesday Apr 07, 2021
Ólöf Nordal - ástríðustjórnmálamaður
Wednesday Apr 07, 2021
Wednesday Apr 07, 2021
Ólöf Nordal leit á það sem hugsjón að vera í stjórnmálum. „Maður gerir það af mikilli innri þrá og þarf að geta einbeitt sér að því,“ sagði Ólöf í viðtali við Morgunblaðið í september 2012 en þá hafði hún ákveðið að draga sig í hlé en hún snéri aftur á sviðið nokkrum árum síðar. Ólöfu fannst alltaf skemmtilegast að „tengja saman ólík sjónarmið, líka hinna yngri og eldri“. Hún hafði enda unum af því að umgangast fólk, naut þess að ræða ólík sjónarmið – Ólöf kunni þá list að hlusta og rökræða – ýta undir skoðanaskipti.
Djúpstæð sannfæring Ólafar í stjórnmálum var byggð á trúnni einstaklinginn og á samfélag samhjálpar og náungakærleika. Hún var ástríðustjórnmálamaður. Í viðtali sagði hún: „Ef við höfum ekkert fram að færa, þá leggjum við upp í tilgangslausa ferð. Ef okkur tekst að koma því á framfæri, sem við viljum berjast fyrir, þá eigum við erindi.“
Ólöf meitlaði hugsjónir ágætlega í blaðagrein í júní 2010:
„Grunnstef Sjálfstæðisflokksins hefur ávallt verið frelsi einstaklingsins og réttur hans til athafna. Í þeim orðum felst jafnframt ákall um ábyrgð hans á gjörðum sínum og því samfélagi sem við viljum byggja hér upp.“
Auðvitað er útilokað að gefa heildstæða mynd af stjórnmálakonunni Ólöfu Nordal á nokkrum mínútum en ég vona að hlustendur verði einhverju nær um úr hvaða jarðvegi hugmyndir hennar voru sprottnar. Hún var varðmaður frelsisins.
Thursday Apr 01, 2021
Eldhuginn Eykon
Thursday Apr 01, 2021
Thursday Apr 01, 2021
Eyjólfur Konráð Jónsson – eða Eykon eins og hann var alltaf kallaður, fæddist í Stykkishólmi árið 1928 en hann lést 1997 þá aðeins tæplega 69 ára. Hann varð stúdent frá Verslunarskóla Íslands 1949, lauk lögfræðiprófi 1955, féll málflutningsréttindi ári síðar og varð hæstaréttarlögmaður 1962.
Eykon var frumkvöðull – eldheitur hugsjónamaður, sem þoldi illa lognmollu og kyrrstaða var honum ekki að skapi. Hann var einn af stofnendum Almenna bókafélagsins árið 1955 og framkvæmdastjóri til 1960 þegar hann varð einn ritstjóra Morgunblaðsins. Því starfi sinnti hann til 1974 þegar hann var kjörinn á þing við Sjálfstæðisflokkinn í Norðurlandskjördæmi vestra. Áður hafði hann verið varaþingmaður. Á þingi sat Eykon til ársins 1995 og var þingmaður Reykvíkinga frá 1987.
Eykon var skemmtilegur maður, gat verið nokkuð ör og á stundum virkaði hann taugaveiklaður, en taugarnar voru sterkar, honum lá bara á – vildi að hlutirnir gerðust. Eykon var maður athafna, talsmaður einkaframtaksins og takmarkaðra ríkisafskipta. Eldheitur hugsjónamaður fyrir þátttöku almennings í atvinnulífinu. Hann lét ekki nægja að tala heldur framkvæmdi, var einn frumkvöðla í fiskeldi, forgöngumaður í iðnaði og frumkvöðull að stofnun Fjárfestingarfélag Íslands, sem innleiddi nýja hugsun inn í staðnað fjármálakerfi. Hann hafði einnig mikil afskipti af utanríkismálum og hafréttarmálum.
Ég fjalla stuttlega um hugmyndir Eykons í atvinnumálum og afstöðu hans til útþenslu ríkisins.
Monday Mar 29, 2021
Staðnað stjórnmálalíf
Monday Mar 29, 2021
Monday Mar 29, 2021
Ármann Sveinsson vakti strax athygli sem rökfastur hugsjónamaður en hann féll frá aðeins 22 ára. Þrátt fyrir ungan aldur hafði hann mikil áhrif meðal jafnaldra sinna en ekki síður á þá eldri í Sjálfstæðisflokknum. Í málflutningi var Ármann rökfastur og ákveðinn. Hann var mikill baráttumaður, en alltaf af drengskap. Hann naut mikils trausts félaga sinna og gekk að öllum verkefnum með dugnaði og atorku.
Í minningargrein um Ármann segir Friðrik Sophusson svo:
"Ármann Sveinsson var hugsjónamaður, sem með hugsjónum sínum og athafnaþrá glæddi umhverfi sitt lífi. Um hann lék jafnan ferskur blær og stundum stormsveipir, eins og oft vill verða um menn, sem eru fastir fyrir og kaupa ekki fylgi á kostnað hugsjóna sinna. Hann var afburða vinsæll í vinahópi og virtur af andstæðingum. Jafnframt því að eiga glæstar hugsjónir var Ármann raunsær baráttumaður, sem var ákveðinn í því að gera hugsjónir sínar að veruleika. Vandaður undirbúningur, auk staðgóðrar þekkingar á íslenzkum hagsmunum og þjóð lífi, var ávallt grundvöllur undir baráttu hans fyrir bættu þjóðfélagi. Hann var sívinnandi og óþreytandi og missti aldrei sjónar af markmiðinu. Þeir, sem börðust með honum og undir forystu hans, gátu átíð vænzt árangurs."
Í þessum þætti fjalla ég um gagnrýni Ármanns á staðnað stjórnmálalíf og almenn áhugaleysi á stjórnmálum. Í mörgu gæti sú gagnrýni hafa verið sett fram í dag.
Sunday Mar 28, 2021
Þegar þjóð er í höftum
Sunday Mar 28, 2021
Sunday Mar 28, 2021
Eftir að hinni eiginlegu sjálfstæðisbaráttu lauk með stofnun lýðveldisins árið 1944, hafa atvinnufrelsi, réttindi einstaklinga, forræðishyggja og haftakerfi verið þungamiðja í pólitískum átökum hér á landi. Þótt oft hafi gengið hægt að hrinda stefnumálum í framkvæmd hefur hugmyndafræði frjálsræðis hægt og bítandi náð yfirhöndinni þótt á stundum verði bakslag.
Múrar haftabúskapar hrundu ekki af sjálfu sér. Verslunarfrelsi fékkst ekki án átaka. Innflutningsskrifstofa ríkisins, sem útdeildi leyfum til innflutnings, var ekki lögð niður fyrr en í fulla hnefana. Það þurfti margar og ítrekaðar tilraunir til að tryggja frelsi á öldum ljósvakans – afnám einokunar ríkisins á útvarps- og sjónvarpsrekstri mætti harðri andstöðu. Sjálfstæðisflokkurinn einn stóð einhuga að því að leyfa vindum frelsis að leika um útvarp og sjónvarp. Það þurfi einbeittan vilja til að brjóta einokun ríkisins á fjarskiptamarkaði á bak aftur og innleiða samkeppni.
Það er á grunni hugmyndafræði einstaklings- og athafnafrelsis sem einkaaðilar hafa fengið að blómstra innan menntakerfisins; Hjallastefnan, Háskólinn í Reykjavík, Verslunarskólinn, Tækniskólinn svo dæmi séu nefnd. Með því að innleiða fjölbreytni inn í menntakerfið hefur möguleikum ungs fólks verið fjölgað.
Dæmin eru miklu fleiri, stór og smá.
Árið 1988 kom út bókin Þjóð í hafti eftir Jakob F. Ásgeirsson, rithöfund og sagnfræðing. Ég sæki efnivið til þessarar stórmerku bókar sem allir ættu að lesa.
Wednesday Mar 24, 2021
Flatur tekjuskattur og saga af tíu vinum
Wednesday Mar 24, 2021
Wednesday Mar 24, 2021
Ég hef lengi verið sannfærður um að tekjuskattskerfi einstaklinga sé ranglátt og vinni gegn þeim markmiðum sem stjórnmálamenn segjast vilja ná; að vera tekjujöfnunartæki á sama tíma og tekjur ríkisins séu tryggðar, jafnvel hámarkaðar.
Þrepaskipt tekjuskattskerfi með tekjutengingum og háum jaðarsköttum er með innbyggðan galla sem vinnur gegn launafólki ekki síst því sem er með lægstu tekjurnar. Halda má því fram að eftir því sem staða fólks á vinnumarkaði er lakari því óréttlátara er tekjuskattskerfið.
Fyrir nokkrum árum setti ég fram tillögu um flatan tekjuskatt – eina skattprósentu óháð tekjum – en um leið taka upp nýjan persónuafsláttur sem lækki eftir því sem tekjur hækka. Í slíku kerfi er réttlætanlegt að ónýttur persónuafsláttur sé greiddur út – s.s. tekjuskattur þeirra sem lakast standa verður neikvæður. Um þetta er fjallað að þessu sinni og um leið sögð saga af tíu vinum og hvernig þrepaskiptin í skattkerfinu virkar.
Friday Mar 05, 2021
Ríkishyggja og fjárhagslegt sjálfstæði
Friday Mar 05, 2021
Friday Mar 05, 2021
Mörgum finnst það merki um ómerkilegan hugsanagang smáborgarans að láta sig dreyma um að launafólk geti tekið virkan þátt í atvinnulífinu með því að eignast í fyrirtækjum, litlum og stórum. Tilraunir til að ryðja braut launafólks inn í atvinnulífið m.a. með skattalegum hvötum eru eitur í beinum þeirra.
Ég hef áður vakið athygli á því hvernig skipulega er alið á fjandskap í garð atvinnulífsins, ekki síst sjávarútvegsins. Jafnvel stjórnmálamenn, sem á hátíðarstundum segjast talsmenn öflugs atvinnulífs, falla í pólitískan forarpytt – popúlisma – og taka þátt í að kynda undir tortryggni og andúð í garð einstakra fyrirtækja eða atvinnugreina.