Episodes

Thursday Feb 17, 2022
Löngunin að öðlast stundarfrægð
Thursday Feb 17, 2022
Thursday Feb 17, 2022
Ummæli eldast misjafnlega. Sum halda gildi sínu í gegnum tímann en önnur hefðu mátt vera ósögð. Í andrúmslofti þar sem frægðin í 15 mínútur vegur þyngra en innihaldið verða orðin ódýr – líkt og óþægilegt suð í eyrum kjósenda. Orðræðan myndar ekki farveg fyrir traust á stjórnmálum eða helstu stofnunum samfélagsins. Þar leika fjölmiðlungar og álitsgjafar stórt hlutverk en mestu ábyrgðina berum við stjórnmálamennirnir, sem eigum þó meira undir en flestir aðrir að njóta trausts fólksins í landinu.

Tuesday Feb 15, 2022
Tálsýn
Tuesday Feb 15, 2022
Tuesday Feb 15, 2022
Við eigum enn eftir að átta okkur að fullu á þeim félagslega og efnahagslega kostnaði sem almenningur hefur þurft að greiða vegna heimsfaraldursins og þeirra hörðu sóttvarnaaðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til.
Vísbendingar eru orðnar nokkuð skýrar um að lokunarstefna sem flestar þjóðir innleiddu reyndist ekki eins árangursrík og vonir stóðu til. Kannski er mikilvægasti og dýrmætasti lærdómur almennings síðustu misseri sá að beita alltaf gagnrýnni hugsun. Ávinningurinn sem stjórnvöld lofa þegar gengið er á réttindi einstaklinga reynist oftar en ekki tálsýn.

Saturday Jan 08, 2022
Frelsið á ekki samleið með óttanum
Saturday Jan 08, 2022
Saturday Jan 08, 2022
Við getum ekki notað sömu baráttuaðferðir og í upphafi þegar óvinurinn var lítið þekktur. Við getum ekki gripið til harkalegri sóttvarna en þegar við vorum lítt varin og sent tugi þúsunda í einangrun eða sóttkví þegar langstærsti hluti landsmanna er bólusettur og alvarleg veikindi fátíð.
Við sem eldri erum getum ekki krafist þess að börn og unglingar sæti þvingunum til að verja heilsu okkar. Skylda okkar er að tryggja að ungt fólk fái að lifa og þroskast í samneyti við jafnaldra sína, geti stundað nám og félagsstörf, farið á böll og komið saman á góðri stundu. Sóttvarnaaðgerðir verða að taka mið af þessari skyldu.
Og sóttvarnaraðgerðir verða að taka mið af því að hægt sé að tryggja gangverk samfélagsins – að það stöðvist ekki. Stjórnvöld og þá ekki síst yfirvöld heilbrigðismála verða að hafa andlegt þrek til að hlusta á gagnrýni og svara áleitnum spurningum, án hroka eða kynda undir ótta almennings. Í lýðfrjálsu landi geta borgararnir aldrei sætt sig við að stjórnvöld nýti sér óttann til að réttlæta takmarkanir á mannlegum samskiptum.

Monday Nov 15, 2021
Stjórnlyndi á vaktinni
Monday Nov 15, 2021
Monday Nov 15, 2021
Stjórnlyndir samfélagsverkfræðingar og ríkisreknar barnfóstrur láta ekki að sér hæða og eru alltaf á vaktinni. En framtakssamir og hugmyndaríkir einstaklingar leggja ekki árar í bát. Þeir finna nýjar leiðir, móta nýjar hugmyndir og ryðja farveg þar sem tækni samtímans er nýtt. Á undanförnum árum hefur komið fram á sjónarsviðið fjöldi hlaðvarpa sem mörg hver hafa notið mikilla vinsælda. Fjölbreytileikinn virðist óendanlegur; þjóðmál, sagnfræði, kvenréttindi, heilsa, hugleiðsla, listir og menning, íþróttir og raunar nær allt mannlegt. Halda má því fram að hlaðvörp framtakssamra einstaklinga hafi verið og séu vaxtarbroddar íslenskrar fjölmiðlunar síðustu misserin. Þegar efnilegir vaxtarbroddar ná að festa rætur getur kerfið – báknið – ekki á sér setið. En í stað þess að vökva er klipið og sært.

Saturday Nov 13, 2021
Loftlagskvíði og barneignir
Saturday Nov 13, 2021
Saturday Nov 13, 2021
Lækkandi fæðingartíðni hefur fylgt vaxandi velmegun þjóða. Að þessu leyti sker Ísland sig ekki úr, þótt þróunin hafi að nokkru verið hægari hér á landi en í nágrannalöndunum. Vísbendingar eru hins vegar um að aðrir þættir en efnahagslegir kunni að verða ráðandi í framtíðinni þegar kemur að lýðfræðilegri þróun þjóða.
Í september síðastliðnum var kynnt í læknatímaritinu Lancet niðurstaða viðamikillar rannsóknar meðal tíu þúsund ungmenna á aldrinum 16 til 25 ára í tíu löndum um loftslagskvíða og áhrif loftslagsbreytinga á líf þeirra. Niðurstöðurnar eru sláandi.

Thursday Nov 11, 2021
Innleiðum samkeppni í grunnskólann
Thursday Nov 11, 2021
Thursday Nov 11, 2021
Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að okkur Íslendingum hafa verið mislagðar hendur í mörgu þegar kemur að grunnmenntun barnanna okkar. Grunnskólinn er sá dýrasti á Vesturlöndum en börnin standa jafnöldrum sínum í nágrannalöndunum að baki í undirstöðugreinum. Vísbendingar eru um að kulnun í starfi meðal grunnskólakennara sé að aukast sem beinir athyglinni að starfsumhverfi, starfskjörum og umbun kennara.
PISA er alþjóðlegt könnunarpróf á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar [OECD] sem mælir lesskilning 15 ára nemenda og læsi þeirra á stærðfræði og náttúruvísindi. Síðasta könnunin var gerð árið 2018. Niðurstaða bendir til að alvarlegar brotalamir sé að finna í íslensku menntakerfi.
Gott, öflugt og fjölbreytt menntakerfi er mikilvægur hornsteinn íslensks samfélags. Menntun er spurning um samkeppnishæfni landsins og þar með lífskjara, ekki síður en mikilvirkasta tæki til jöfnuðar. Grunnskólinn er undirstaða alls í menntamálum þjóðarinnar. Vísbendingar um brotalamir við menntun grunnskólabarna ber að taka alvarlega án þess að mála allt svörtum litum.

Wednesday Oct 27, 2021
Gegn eigendum lítilla fyrirtækja
Wednesday Oct 27, 2021
Wednesday Oct 27, 2021
Aðeins fjögur lönd innan OECD leggja á stóreignaskatt / auðlegðarskatt - Noregur, Kólumbía, Spánn og Sviss. Á undanförnum áratugum hafa æ fleiri lönd horfið frá slíkri skattheimtu og horfa fremur til þess að skattleggja flæði fjármagns en stöðu. Fyrir þessu eru margar ástæður enda skatturinn óskilvirkur, erfitt er að skilgreina skattstofninn og skattheimtan skilað litlu en valdið efnahagslegum skaða. Að mati OECD eru í besta falli takmörkuð rök fyrir því að leggja auðlegðarskatt til viðbótar við erfðafjárskatta og fjármagnstekjuskatt, hvort sem horft er til skilvirkni eða jöfnuðar.
Að þessu sinni verður fjallað um hugmyndir um að leggja að nýju á stóreignaskatt á hreina eign einstaklinga og því haldið fram að um efnahagslega firru sé að ræða sem mun draga úr fjárfestingum og vilja einstaklinga til efnahagslegra athafna. Skatturinn er aðför að eigendum lítilla og meðalstórra fyrirtækja, refsar ungu fólki sérstaklega og ýtir undir fjármagnsflótta.

Monday Oct 25, 2021
Sjálfstæðir fjölmiðlar í súrefnisvél
Monday Oct 25, 2021
Monday Oct 25, 2021
Ríkisútvarpið hefur notið þess að faðmur flestra stjórnmálamanna er mjúkur og hlýr. Í hugum þeirra á allt umhverfi frjálsra fjölmiðla að mótast af hagsmunum ríkisrekna fjölmiðlafyrirtækisins. Ríkisstyrkir til sjálfstæðra fjölmiðla eru því ekki annað en fórnarkostnaður vegna Ríkisútvarpsins, – skjólveggur um Efstaleiti gegn vindum breytinga og framþróunar.
Formaður Blaðamannafélagsins heldur því fram að fjölmiðlar verði ekki til án ríkisstyrkja. Nöturleg framtíðarsýn.

Sunday Oct 24, 2021
Erfið og flókin brúarsmíði
Sunday Oct 24, 2021
Sunday Oct 24, 2021
Með hliðsjón af úrslitum kosninganna væri fráleitt annað en að forystumenn stjórnarflokkanna láti reyna á það hvort ekki séu forsendur til að halda samstarfinu áfram og það hafa þeir gert síðustu vikurnar. En verkefnið er langt í frá einfalt. Þrátt fyrir allt er hugmyndafræðilegur ágreiningur verulegur, allt frá skipulagi heilbrigðiskerfisins til orkunýtingar og orkuöflunar, frá sköttum til ríkisrekstrar, frá þjóðgörðum til skipulagsmála, frá refsingum og þvingunum í loftslagsmálum til jákvæðra hvata og nýtingar tækifæra í orkuskiptum. Forystumenn stjórnarflokkanna þurfa að leiða ágreining í þessum málum og fleirum „í jörð“ ef ákveðið verður að endurnýja samstarfið. Niðurstöður kosninganna verða hins vegar illa túlkaðar með öðrum hætti en þeim að til þess hafi formenn stjórnarflokkanna skýrt umboð meirihluta kjósenda.
Fáum getur dulist að í mörgum málum er langt á milli stjórnarflokkanna. Brúarsmíðin verður flókin og krefst útsjónarsemi og lagni smiðsins. Sá trúnaður og traust sem ríkt hefur á milli forystumanna stjórnarflokkanna hjálpar.
Um þetta og niðurstöðu kosninganna er fjallað að þessu sinni.

Sunday Sep 12, 2021
Af bílslysi og gölluðu frumvarpi
Sunday Sep 12, 2021
Sunday Sep 12, 2021
Eitt helsta loforð vinstri stjórnarinnar 2009 til 2013 – ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, var að endurskoða lög um stjórn fiskveiða. Í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar sem oftast er kennd við Jónönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússonar var sagt að markmiðið væri að „skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar“ og um leið að „leggja grunn „að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka“.
Vægt er til orða tekið að halda því fram að ríkisstjórninni hafi verið mislagðar hendur við að hrinda þessu stefnumáli sínu í framkvæmd. Tillögum sáttanefndar var hent út í hafsauga, álit sérfræðinga var hundsað og þess í stað reynt að þvingja breytingum í gegnum þingið. En ríkisstjórnin sigldi á sker og ráðherrar vildu ekki kannst við neitt. Forsætisráðherra sagði frumvarp eigin ríkisstjórnar vera að mörgu leyti gallað og annars sagði að um bílslys hefði verið að ræða.

