Episodes

Saturday Jan 18, 2020
Samvinna og áskoranir kynslóðanna
Saturday Jan 18, 2020
Saturday Jan 18, 2020
Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar er áskorun sem kynslóðirnar verða að mæta í sameiningu. Góðu fréttirnar eru að við stöndum sterka að vígi efnahagslega, lífeyriskerfið með því öflugasta sem þekkist í heiminum, lífaldur er að hækka og lífsgæðin að aukast. Vondu fréttirnar eru þær að hlutfallslega verða æ færri á vinnumarkaði.
Við þurfum hugarfarsbreytingu. Ungt fólk verður að virða rétt þeirra eldri til að taka virkan þátt í vinnumarkaðinum og skynja þau verðmæti sem fólgin eru í reynslu og þekkingu. Að sama skapi verða þeir eldri að gefa yngra fólki svigrúm, vera opnir fyrir nýjum hugmyndum og aðferðum. Hugarfarsbreytingin felst í aukinni samvinnu milli kynslóða.

Wednesday Jan 15, 2020
Grænir skattar: Góð hugmynd?
Wednesday Jan 15, 2020
Wednesday Jan 15, 2020
Það hljómar ekki illa að leggja á græna skatta enda allt vænt sem er vel grænt. Umhverfisskattar eru ekki nýtt fyrirbæri en með aukinni vitund um náttúruvernd hefur verið lögð áhersla á að slíkir skattar skuli innheimtir. Vísbendingar eru um að grænir skattar hafi neikvæð áhrif á tekjulága hópa. Skattarnir leggjast hlutfallslega þyngra á tekjulága en hátekjufólk. Ekki má heldur gleyma því að möguleikar fólks til að breyta hegðun sinni eru oft í réttu hlutfalli við tekjur. Hátekjumaðurinn á auðveldara með að taka strax þátt í orkuskiptum með því að kaupa sér rafmagnsbíl (og njóta raunar töluverðra ívilnana) en unga fjölskyldan sem hefur ekki efni á öðru en halda áfram að nota gamla bensínfjölskyldubílinn.
Sé tilgangurinn að baki grænum sköttum að stuðla að breyttri hegðun fyrirtækja og einstaklinga til að ná fram ákveðnum markmiðum í umhverfismálum, liggur það í hlutarins eðli að skattarnir skila æ minni tekjum eftir því sem árin líða.

Monday Jan 06, 2020
Fábreytilegt líf án listar
Monday Jan 06, 2020
Monday Jan 06, 2020
Sagan kennir okkur að pólitískt sjálfstæði þjóðar byggist á sögu, tungu og menningu. Glati þjóð arfleifð sinni, mun hún fyrr fremur en síðar missa sjálfstæði sitt. Sá er þetta skrifar er að minnsta kosti sannfærður um að öflugt lista- og menningarlíf sé brjóstvörn fámennrar þjóðar – tryggi betur en margt annað fullveldið.
Lífið án listarinnar yrði fábreytilegt – grámyglulegt amstur þar sem hver dagur væri öðrum líkur. Listin og menningin eru krydd lífsins og andlegt fóður hvers og eins.
Margir telja nauðsynlegt að hið opinbera verji verulegum fjármunum til lista- og menningarstarfsemi. Á hverju ári er ákall um aukin framlög. Svo eru þeir til sem telja rétt að draga úr eða jafnvel hætta öllum opinberum stuðningi. Ég hef lengi verið sannfærður um að opinbert stuðningskerfi við íslenska listamenn þjóni ekki markmiðum um fjölbreytta og öfluga listastarfsemi. Kerfið vinnur á móti nýjum hugmyndum og hamlar því að nýtt blóð fái að renna um æðar listaheimsins.

Wednesday Dec 25, 2019
Ef sjálfur ei leggur í sölurnar neitt ...
Wednesday Dec 25, 2019
Wednesday Dec 25, 2019
Í samfélagi nútímans hefur trúin verið tortryggð. Við sem tökum undir með þjóðskáldinu og trúum á tvennt í heimi; Guð í alheimsgeimi og Guð í okkur sjálfum, erum sögð einfeldningar og af sumum jafnvel hættuleg. Í hraða nútímans er sú hætta fyrir hendi að við tökum upp siði Bakkabræðra sem töldu sig geta bjargað gluggaleysi með því að bera sólarljósið inn í bæinn. Í predikun í Hallgrímskirkju á öðrum degi jóla árið 2002 velti herra Sigurbjörn Einarsson biskup því fyrir sér af hverju kristin trú ætti undir högg að sækja:
„Maður nútímans á erfitt með að skilja að það sé einhvers virði sem ekki þarf að kaupa eða klófesta. Hann getur svo mikið sjálfur. Er það ekki þess vegna sem kristin trú er svo lítils metin af mörgum? Hún er rétt eins og sólin, sem bara gefur geislana sína og heimtar ekkert annað en að fá að lýsa og verma og gefa líf.“
Séra Karl V. Matthíasson fékk mig til að flytja stutta hugvekju á öðrum sunnudegi aðventu í Guðríðarkirkju. Ég sótti í smiðju herra Sigurbjarnar Einarsson en sagði einnig frá afa mínum, Guðjóni bakara, sem 24 ára gamall kom ungri ekkju og fimm börnum hennar til aðstoðar. Og mér er lítil vísa séra Valdimars Briem hugleikinn:
Það engin er dyggð þótt þú elskir þá heitt
sem ástríki mesta þér veita.
Ef sjálfur ei leggur í sölurnar neitt
þá síst má það kærleikur heita.

Sunday Dec 22, 2019
Kerfið er alltaf á vaktinni
Sunday Dec 22, 2019
Sunday Dec 22, 2019
Kerfið er á vaktinni yfir eigin velferð og þegar að því er sótt getur það sýnt klærnar. Dæmin eru mörg, misalvarleg og hafa valdið einstaklingum og fyrirtækjum fjárhagstjóni en einnig a.m.k. tímabundnum álitshnekki og erfiðleikum. Tvö nýleg dæmi eru langt frá því að vera þau alvarlegustu heldur gefa þau ákveðna innsýn í inngróinn hugsanahátt kerfisins. Annað dæmið snertir Seðlabankann og samskipti við blaðamann, hitt er viðbrögð forráðamanna og velunnara Samkeppniseftirlitsins við frumvarpsdrögum ráðherra samkeppnismála sem lögð hafa verið fram til kynningar og umræðu.

Wednesday Dec 18, 2019
Múr skammarinnar
Wednesday Dec 18, 2019
Wednesday Dec 18, 2019
Árið 1989 riðaði sósíalisminn til falls í Austur-Evrópu. Sovétríkin glímdu við gríðarlega efnahagslega erfiðleika og matarskort. Í Póllandi hafði frelsisbylgja þegar náð að leika um landið undir fánum Samstöðu. Í ágúst mynduðu tvær milljónir íbúa Eystrasaltsríkjanna – Eistlands, Lettlands og Litháens – 600 kílómetra langa keðju þvert yfir löndin, til að krefjast sjálfstæðis frá Sovétríkjunum. Ungverjaland opnaði landamærin til Austurríkis.
Nokkrum mánuðum fyrir fall múrsins – sem Willy Brandt kallaði múr skammarinnar – hafði heimurinn hins vegar verið minntur óþyrmilega á hversu reiðubúnar alræðis- og kúgunarstjórnir eru til að beita eigin landsmenn ofbeldi.

Sunday Dec 15, 2019
Öflugt tæki til jöfnuðar
Sunday Dec 15, 2019
Sunday Dec 15, 2019
Það er rannsóknarefni að enn skuli rifist um verkaskiptingu hins opinbera og einkafyrirtækja, hvort heldur á sviði heilbrigðisþjónustu eða menntunar. Íslensk heilbrigðisþjónusta kemst ekki af án einkarekstrar. Íslenskt menntakerfi er blómlegra og öflugra vegna sjálfstætt starfandi skóla – Ísaksskóli, Hjallastefnan, Verslunarskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, svo nokkur dæmi séu nefnd.
Ég hef orðið fyrir vonbrigðum vegna þess hversu illa hefur tekist að innleiða með skipulegum hætti samkeppni um þjónustu sem við höfum tekið ákvörðun um að standa sameiginlega undir.

Saturday Dec 14, 2019
Ríki barnfóstrunnar
Saturday Dec 14, 2019
Saturday Dec 14, 2019
„Almenningur er fávís og því þarf að hafa vit fyrir honum og verja gagnvart sjálfum sér."
Auðvitað er þetta aldrei sagt upphátt en er þó grunnstefið í hugmyndafræði stjórnlyndra manna, sem telja nauðsynlegt að ríkið sé alltumlykjandi. Án barnfóstru ríkisins sé hætta á að einstaklingar fari sér að voða eða valdi samferðamönnum sínum skaða. Ekkert mannlegt er barnfóstrunni óviðkomandi og vandmál eru hennar sérgrein. Þetta vita hinir stjórnlyndu og við hin sitjum aðgerðalítil hjá. Stjórnsýslan, fjölmiðlar og stjórnmálin eru gegnsýrð af hugmyndafræði barnfóstruríkisins. Ekkert vandamál er of lítið og ekkert of stórt til að barnfóstran sé ekki kölluð á vettvang. Og nú þarf fóstran ekki aðeins að huga að íslenskum „kjánum“ heldur ekki síður að þeim þúsundum erlendra ferðamanna sem streyma til landsins.

Friday Nov 22, 2019
Bakari, leikari og íhaldsmaður
Friday Nov 22, 2019
Friday Nov 22, 2019
Guðjón Sigurðsson bakarameistari var ekki hár í lofti en samsvaraði sér ágætlega, snaggaralegur og kvikur í hreyfingum, glaðlegur og hressilegur í framkomu, fundvís á spaugilegar hliðar lífsins. Einstakur sögumaður þar sem meðfæddir leikhæfileikar fengu útrás.
Guðjón fæddist á Mannskaðahóli í Hofshreppi 3. nóvember 1908. Hann átti og rak Sauðárkróksbakarí í áratugi. Guðjón bakari var leikari af guðs náð og átti góðar samvistir við leiklistargyðjuna, ekki síst þegar hann fékk að njóta sín í gamanleik. Þar fékk léttlyndi og kímnigáfa hans að njóta sín. En hann hafði alla tíð ákveðnar skoðanir á þjóðmálum og sjálfstæðismaður inn að beini og átti erfitt með að skilja hvernig nokkur maður gæti verið annað.
Hér er sagt lítillega frá manni sem var af kynslóð sem lagði grunninn að því samfélagi velferðar sem Íslendingar búa við þrátt fyrir tímabundna erfiðleika. Hann byggði upp glæsilegt iðnfyrirtæki í litlu bæjarfélagi og lét ekki áföll drepa sig niður.

Friday Nov 15, 2019
Sjálfstæði sveitarfélaga
Friday Nov 15, 2019
Friday Nov 15, 2019
Reglulega koma fram hugmyndir um að rétt sé og skylt að þvinga fámenn sveitarfélög til að sameinast öðrum. Lærðir og leiknir taka til máls og færa fyrir því (misjöfn) rök að það sé lífsnauðsynlegt að fækka sveitarfélögum til að ná fram hagkvæmni stærðarinnar. Tillögur um fækkun sveitarfélaga eru ekki frumlegar enda byggjast þær á þeirri trú að það sem er lítið sé veikburða og aumt en hið stóra og fjölmenna sterkt og burðugt. Sem sagt: Stórt er betra en lítið og fjölmenni er hagkvæmara en fámenni.